Hugarafl heldur upp á 6 ára afmæli sitt föstudaginn 5. júní

Mynd af frétt Hugarafl heldur upp á 6 ára afmæli sitt föstudaginn 5. júní
04.06.2009

"Valdefling í verki, er okkar vörumerki"

Hugarafl heldur upp á 6 ára afmæli sitt, föstudaginn 5. júní næstkomandi.

Afmælið hefst með gjörningi kl. 13:00, fyrir utan Geðdeild Landspítalans við Hringbraut.

Heilsað verður upp á fulltrúa þaðan og svo verður lagt af stað með sjúkrarúm. Gengið verður fylktu liði sem leið liggur eftir Eiríksgötu, yfir Skólavörðuholtið, niður Skólavörðustíg og endað á Kaffi Rót, Hafnarstræti 17. Þar verður kaffi og með því og allir eru velkomnir.

Í rúminu verður að sjálfsögðu manneskja í náttfötum. Þeir sem fylgja rúminu verða líka klæddir á viðeigandi hátt, svo sem í náttfötum. Áherslan verður á litadýrð, fjölbreytileika og gleði. 

Svipaður gjörningur hefur verið gerður erlendis til að breyta viðhorfum almennings til geðheilbrigðismála. Gjörningurinn verður framkvæmdur í samvinnu við lögreglu og vonandi að sem flestir sem láta sig málaflokkkinn varða, sjái sér fært að vera með og ganga til áhrifa.

Markmiðið er í fyrsta lagi að halda upp á 6 ára afmæli Hugarafls, en einnig að vekja athygli á fordómum í garð geðsjúkra, berjast fyrir auknum réttindum og minna á mikilvægi þess að bjóða upp á fleiri valkosti í meðferð. 

Athygli er vakin á þeirri staðreynd að margt er hægt að gera í meðferð geðsjúkra og bati er mögulegur. Minnt er á að til eru aðrar leiðir en hefðbundið kerfi býður upp á, einstaklingar eru mismunandi og þurfa að hafa hlaðborð af valmöguleikum. 

Hugarafl hvetur alla til að taka þátt í þessum gjörningi.

Hugarafl og Geðheilsa - Eftirfylgd/iðjuþjálfun eru til húsa að Álfabakka 16.