Þróunarstofa heilsugæslunnar og Þroska- og hegðunarstöð

Mynd af frétt Þróunarstofa heilsugæslunnar og Þroska- og hegðunarstöð
01.04.2009

Undanfarið hafa staðið yfir skipulagsbreytingar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í endurskipulagningunni felst meðal annars sameining Miðstöðvar mæðraverndar, Miðstöðvar tannverndar og að nokkru leyti Miðstöðvar heilsuverndar barna undir hatti Þróunarstofu heilsugæslunnar. Ennfremur munu starfa innan Þróunarstofunnar lyfjafræðingur HH, Kristján Linnet, og prófessor í heimilislækningum við Háskóla Íslands og yfirlæknir í Heilsugæslunni Sólvangi, Jóhann Ágúst Sigurðsson, sem mun leiða starfið innan stofunnar.

Gert er ráð fyrir að þróunarvinna og rannsóknavinna vegna ung- og smábarnaverndar, skólaheilsugæslu, mæðraverndar, tannverndar og annarar heilsuverndar ásamt þróunar og gæðavinnu við önnur viðfangsefni Heilsugæslunnar fari fram á Þróunarstofunni.

Sú starfsemi sem áður tilheyrði Þroska- og hegðunarsviði MHB verður eftirleiðis sjálfstæð eining innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Þroska- og hegðunarstöð.

Starfsemin verður áfram til húsa í Þönglabakka 1.

Verið er að breyta vef Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins í samræmi við þessar viðamiklu skipulagsbreytingar. Sú vinna mun taka einhverjar vikur. Upplýsingar um símanúmer, starfsfólk og staðsetningu eru samt réttar.