Tímamót í heimahjúkrun í Kópavogi

Mynd af frétt Tímamót í heimahjúkrun í Kópavogi
04.09.2008

Á myndinni eru frá vinstri Sigríður A. Pálmadóttir, yfirhjúkrunarfræðingur Heilsugæslunnar Hamraborg og Heilsugæslunnar Hvammi í Kópavogi, Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarfulltrúi. 

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, undirrituðu kl. 10 í morgun í bæjarstjórnarsal Kópavogs þjónustusamning um að ráða félagsliða í fjórar nýjar stöður við heimahjúkrun í Kópavogi.

Félagsliðarnir vinna sem hluti af teymi heimahjúkrunar að verkefnum tengdum persónulegri umhirðu og félagslegri virkni skjólstæðinganna. Dagleg stjórn þjónustunnar verður á einni hendi og falin Heilsugæslunni í Hamraborg.

Um er að ræða samning sem lýtur að samþættingu á sviði heimahjúkrunar ríkisins og heimaþjónustu sveitarfélagsins í því augnamiði að nýta þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar eins vel og kostur er en jafnframt auka og bæta þjónustuna í heimahúsum.

Verkefnið markar tímamót í samþættingu þjónustu við aldraða og sjúka í heimahúsum. Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða og markvissa, árangursríka og faglega þjónustu allan sólarhringinn alla daga vikunnar og gera einstaklingum kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest.

Samningurinn gildir frá 1. október 2008 til 30. september 2009 og framlengist um eitt ár í einu hafi honum ekki verið sagt upp með tilskildum fyrirvara. Kópavogsbær leggur til þrjú stöðugildi félagsliða á móti einu stöðugildi félagsliða frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta er í fyrsta sinn sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ræður til sín félagsliða.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í tvö ár, frá haustinu 2006, og verið unnið í samstarfi Félagsþjónustunnar í Kópavogi, Heilsugæslu Kópavogs og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.