Nýjar leiðbeiningar NICE um meðhöndlun miðeyrnabólgu

Mynd af frétt Nýjar leiðbeiningar NICE um meðhöndlun miðeyrnabólgu
26.08.2008

og annarra efri loftvegasýkinga í heilsugæslunni.

Athygli er vakin á nýjum klínískum leiðbeiningum síðan í júlí frá breskum heilbrigðisyfirvöldum (National Institute for Health and Clinical Excellence (NICE) um hvenær þörf sé að meðhöndla vægar efri öndunarfærasýkingar með sýklalyfjum. Leiðbeiningar eru einnig skrifaðar fyrir almenning og höfða sérstaklega til foreldra barna 3 mánaða og eldri og fyrir aðra sem annast heilsugæslu barna. Sérstaka athygli vekur að lögð er áhersla á gott aðgengi að heilsugæslunni þar sem fyrri saga sjúklings, fræðsla og frekara eftirlit er haft að leiðarljósi svo að hægt sé að bíða með sýklalyfjagjöf gegn vægum sýkingum sem oftast læknast af sjálfu sér hjá annars heilsuhraustum einstaklingum. Þetta er gert til að draga úr afleiðingum óþarfa notkunar sýklalyfja. Hvatt er t.d. til að bíða með að meðhöndla bráðar miðeyrnabólgur með sýklalyfjum fyrstu 4 dagana nema ef sýkingareinkenni eru slæm og ef sýking er í báðum eyrum hjá börnum yngri en 2 ára.

Eins segir í leiðbeiningunum að ef ákveðið er að gefa ekki sýklalyf má til vara íhuga sem þriðja kost að gefa foreldrum lyfseðil með ávísun á sýklalyf sem er þá leystur út ef einkenni versna áður en hægt sé að endurmeta ástandið hjá lækni. Um er að ræða töluvert íhaldssamari leiðbeiningar hvað varðar ávísanir á sýklalyf en áður hafa  þekkst og sem kemur meðal annars fram í íslenskum leiðbeiningunum frá 2007.

NICE leiðbeiningar eru mjög virtar og eru mikið notaðar hér á landi í klínískum leiðbeiningum Landlæknis varðandi ýmsa sjúkdómaflokka.