Lýðheilsustöð og Heilsugæslan boðuðu til fundar 5. febrúar í fræðslusal Barnaspítala Hringsins þar sem frumsýningin fór fram en með fjarfundarbúnaði var hægt að fylgjast með honum hvar sem var á landinu og var það gert á Akureyri, Egilsstöðum, Siglufirði og Húsavík.
Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fór nokkrum orðum um stöðuna í tannverndarmálum landsmanna þar sem m.a. kom fram að fyrir nokkrum árum hefði tannvernd barna verið komin í mjög gott form en vegna breyttra áherslna hefði þetta breyst. Nú eigi aftur á móti að fara að efla eftirlitshlutverk heilsugæslunnar með tannvernd barna og ungmenna að 18 ára aldri. En það sé ekki eingöngu tannheilsa unga fólksins sem þarf að huga að því aldraðir haldi nú eigin tönnum lengur en á árum áður og vænta megi þess að það fjölgi í þeim hópi. Margir aldraðir, og fleiri, þurfi á aðstoð við tannhirðu að halda, jafnt þeir sem búa heima og á stofnunum, og því sé mjög mikil þörf fyrir fræðsluefni eins og það sem nú er gefið út.
Áður en myndin var frumsýnd sagði Hólmfríður Guðmundsdóttir frá aðdraganda þess að ráðist var í gerð fræðsluefnisins.
Umræður - Munnholið er hluti af líkamanum
Fundarstjóri var Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar, og sagði hann að frumsýningu lokinni að þarna kæmu fram mjög miklar og góðar upplýsingar sem öllum kæmu til góða. Sjálfur hefði hann þarna fengið að vita ýmislegt sem hann hefði ekki vitað áður.
Hann bauð því næst til umræðna um fræðsluefnið og tannheilsu og fyrir svörum sátu þær Helga Ágústsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Inga B. Árnadóttir, forseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands og Hólmfríður Guðmundsdóttir. Þórólfur reið á vaðið og spurði hvort það væri rétt að tilhneiging væri til að líta ekki á munnholið sem hluta af líkamanum þegar kæmi að samfélagslegum heilbrigðiskostnaði.
Inga svaraði að þetta væri rétt og að það væri óskiljanlegt hvers vegna greitt væri fyrir þá læknisþjónustu sem inna þyrfti af hendi ef barn handleggsbryti sig t.d. á skíðum en ef það bryti tönn þá þyrftu foreldrar alfarið að standa undir lækniskostnaðinum.
Helga sagði að þó að hún ynni hjá heilbrigðisráðuneytinu þá gæti hún ekki svarað því afhverju þetta væri svona. Hún nefndi að almennt væru tannheilsumál nokkuð góð hér á landi og þakkaði það því að landsmenn væru almennt nokkuð fróðir um tannhirðu. Aftur á móti mætti aldrei slaka á fræðslunni og að hún yrði að vera stöðug.
Hólmfríður sagði að einmitt þar væri þess vænst að nýja fræðsluefnið kæmi í góðar þarfir. Fagfólk á sviði tannheilsu væri lítið sem ekkert að störfum á heilbrigðisstofnunum og efnið væri einkum ætlað þeim sem væru að hjálpa öðrum að huga að tannheilsu sinni, þ.e. starfsfólki á þessum stofnunum.
Umræðurnar snérust einnig um það að efla þyrfti samstarf tannheilsudeildar Háskóla Íslands við aðra sem sinntu kennslu heilbrigðisstétta, s.s. lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, en fram kom að nú þegar er verið að auka þetta samstarf.
Kennsluefni og aðrar upplýsingar
Að lokum var bent á að hægt verður að prenta út kennsluefni af heimasíðu Lýðheilsustöðvar: Tannvernd-Fræðsla-fagfólk sem hægt er að nota um leið og fólk er að læra það sem fram kemur í fræðslumyndinni. Einnig verða þar upplýsingar um ýmislegt ítarefni, s.s. hvar hægt sé að nálgast þau hjálpartæki og tól sem sýnd eru í myndinni og fleira. Stöðugt verður bætt við efni eftir því sem ástæða þykir til.