Námskeið í reykleysismeðferð 21. september

Mynd af frétt Námskeið í reykleysismeðferð 21. september
10.09.2007

Að styðja fólk til reykleysis, fræðslufundur og námskeið í hvetjandi samtalstækni 21. september

Námskeið í reykleysismeðferð verður haldið á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við Lýðheilsustöð á Hótel Loftleiðum þann 21. september n.k.
Markmið námskeiðsins er að auka færni heilbrigðisstarfsfólks í að veita reykleysismeðferð er leiðir til þess að fleiri skjólstæðingar sem reykja fái viðeigandi meðferðarúrræði í takt við nýjustu þekkingu á sviði tóbaksvarna.

Í byrjun febrúar 2007 lagði heilbrigðisráðherra fram nýja forvarnarstefnu: Heilbrigði og forvarnir í sókn – með samtakamætti landsmanna. Þar kemur fram að efla eigi reykleysismeðferð, sérstaklega fyrir barnshafandi konur og maka þeirra.

Breytingar hafa átt sér stað frá 1. júní sl. hvað varðar reykingar á almannafæri. Reykingar eru ekki lengur leyfðar á veitinga – og skemmtistöðum og má reikna með að þessar breytingar setji einnig aukna pressu á heilbrigðiskerfið að vera með úrræði fyrir þá sem vilja hætta að reykja.

Námskeiðið verður í boði fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður en verður öllum opið sem áhuga hafa á málinu.  Á námskeiðinu verður aðaláherslan lögð á samtalstækni.  Auk þess verður rætt um fíkn, lyf við nikótínfíkn, skaðsemi reykinga á fóstur og skaðsemi óbeinna reykinga. Nýjar klínískar leiðbeiningar um reykleysismeðferð verða einnig kynntar ásamt nýrri gagnvirkri heimasíðu til stuðnings til reykleysis.
Gestur okkar á námskeiðinu er Jennifer Percival, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Hún er sérfræðingur í samtalstækni og hefur sérhæft sig í að veita ráðgjöf til reykleysis. Hún hefur jafnframt sérmenntun í heilsueflingu og lýðheilsufræðum. Jennifer hefur unnið til margra ára fyrir NHS í Bretlandi og skrifað mikið efni um meðferð til reykleysis og veitt fjölmörgum stuðning með skrifum sínum og útgáfu bóka og bæklinga.

Að undirbúningi námskeiðsins koma. Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Sigrún Barkardóttir hjúkrunarforstjóri, Karítas Ívarsdóttir ljósmóðir, Þórður G. Ólafsson yfirlæknir, Jón Steinar Jónsson heilsugæslulæknir, Ebba Margrét Magnúsdóttir fæðingarlæknir auk Báru Sigurjónsdóttur og Sveinbjörns Kristjánssonar verkefnisstjóra á Lýðheilsustöð.

Það er ósk okkar sem stöndum að undirbúningi þessa námskeiðs að sem flestir heilbrigðisstarfsmenn sjái sér fært að mæta. Stefnt er að því að halda þátttökugjaldi í algjöru lágmarki. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu verða veittar síðar. Takið daginn frá.

Með vinsemd, fyrir hönd undirbúningshópsins; Karítas Ívarsdóttir ljósmóðir, Miðstöð mæðraverndar, Þönglabakka 1, Sími: 585-1400