Samstarfssamningur um slysavarnir barna

Mynd af frétt Samstarfssamningur um slysavarnir barna
31.07.2007

Í því skyni að efla slysavarnir barna hér á landi skrifuðu Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Sjóvá Forvarnahúsið undir samstarfssamning þ. 25. júní sl. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Forvarnahússins af Guðmundi Einarssyni, forstjóra Heilsugæslunnar, Herdísi L. Storgaard, forstöðumanni Forvarnahússins og Geir Gunnlaugssyni, forstöðumanni Miðstöðvar heilsuverndar barna. Samningurinn felur í sér að báðir aðilar munu stilla saman strengi sína til þess að samræma og efla fræðslu um slysavarnir barna hér á landi.

Mikilvægt markmið samningsaðila er meðal annars að afla bestu þekkingar og reynslu um slysavarnir barna og gera hana aðgengilega fyrir fagfólk og foreldra. Fyrsta verkefnið er að gefa út nýtt og endurskoðað fræðsluefni um slysavarnir barna fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Efnið verður gefið út af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og verður aðgengilegt á rafrænu formi á heimasíðu hennar á komandi vikum. Samningurinn felur einnig í sér samstarf samningsaðila um að þróa og gefa út nýtt fræðsluefni um slysavarnir barna fyrir foreldra sem verður gefið út í bæklingaformi á komandi hausti.

Nánari upplýsingar veita:
Herdís L. Storgaard,   forstöðumaður Sjóvá Forvarnahússins,   
Katrín Davíðsdóttir,  barnalæknir, Miðstöð heilsuverndar barna,