Á Miðstöð heilsuverndar barna kynnti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nýja stefnu í forvarnamálum

Mynd af frétt Á Miðstöð heilsuverndar barna kynnti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nýja stefnu í forvarnamálum
07.02.2007

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Siv Friðleifsdóttir, kynnti fyrir fjölmiðlum nýja stefnu í forvarnamálum undir kjörorðinu: Heilbrigði og forvarnir í sókn – með samtakamætti landsmanna. Kynningin fór fram í húsnæði Miðstöðvar heilsuverndar barna og tók Geir Gunnlaugsson, forstöðumaður Miðstöðvarinnar þátt í kynningunni ásamt Önnu Elísabet Ólafsdóttur, forstjóra Lýðheilsustöðvar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur mótað stefnu í forvarnamálum undir kjörorðinu: Heilbrigði og forvarnir í sókn – með samtakamætti landsmanna. Markmiðið er að tryggja að sjónarmiða lýðheilsu verði gætt í ríkari mæli en verið hefur við alla stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu. Stefnumótunin byggir á heilbrigðisáætlun til 2010 og ítarlegri aðgerðaáætlun Lýðheilsustofnunar á þessu sviði og er gert ráð fyrir að nota 50-60 milljónir króna á þessu ári til að vinna að framgangi málsins.

„Þær ógnir sem steðja að heilsufari landsmanna eru í sumum tilvikum afleiðingar óheilsusamlegs lífernis og þeim má verjast með ýmsum ráðum. Með bættum lífsstíl má bæði koma í veg fyrir sjúkdóma og auka lífsgæði. Því er eftir miklu að sækjast og þess virði að leggja vaxandi áherslu á forvarnir og heilsueflingu,“ segir Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Átta meginsvið

Til að hvetja til góðra verka á sviði forvarna hefur verið ákveðið að veita Íslensku lýðheilsuverðlaunin í fyrsta sinn á vori komanda. Það er gert í viðurkenningarskyni vegna framlags stofnana, félagasamtaka eða fyrirtækja til góðrar heilsu landsmanna en stefnumótun ráðherra í forvarnamálum nær til átta meginsviða:

Skipulag forvarna Til að stuðla að hámarksárangri allra aðgerða og sem hagkvæmastri nýtingu fjármuna, verður skipulag forvarnamála tekið til endurskoðunar, þ.á.m. lög um Lýðheilsustöð, með það að markmiði að koma á skýrari verkaskiptingu og markvissari samvinnu stofnana og annarra aðila sem sinna forvörnum og bættri lýðheilsu.

Heilsuvernd og bætt heilsa Lýðheilsustöð hefur verið falið að vinna aðgerðaráætlun um bætta heilsu barna og unglinga. Sérstök áhersla verður lögð á ung- og smábarnavernd, m.a. með enn frekari útbreiðslu foreldranámskeiðanna „Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar“ á landsvísu sem Miðstöð heilsuverndar barna stendur fyrir. Heilsugæsla í grunnskólum verður efld sem og hlutverk heilsugæslunnar í þjónustu við aldraða. Jafnframt er lögð áhersla á að heilsugæslan verði meðvituð um sérþarfir einstakra hópa - og í stakk búin til að mæta þörfum þeirra.

Hreyfing Ráðist verður í viðamikið verkefni, „Hreyfing fyrir alla“, með það að markmiði að stórauka hreyfingu meðal almennings og gefa fólki kost á skipulagðri hreyfingu undir handleiðslu fagfólks. Áætlað er að þetta verkefni nái til 2/3 hluta landsmanna. Þá leggur ráðherra áherslu á að hreyfing undir handleiðslu fagfólks standi sjúklingum til boða og er hafið tilraunaverkefni í þá veru. Læknir gefur út „hreyfiseðil“ til sjúklings og sjúkraþjálfari aðstoðar viðkomandi við útfærslu æfingaprógramms sem hentar.

Geðheilbrigði Áhersla hefur verið lögð á að efla sérþekkingu innan heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í þessum málaflokki. Hefur m.a. verið mörkuð stefna í geðheilbrigðismálum barna og unglinga með hegðunar- og geðraskanir og unnin framkvæmdaáætlun. Stefnumótun hefur einnig verið sett fram í geðheilbrigðisþjónustu við aldraða.

Aðgerðir gegn átröskun og ofþyngd Áhersla er lögð á vitundarvakningu sem stuðlar að hollari lífsháttum, bættu mataræði og aukinni hreyfingu, m.a. með samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og sveitarfélaga í landinu. Þá ætlar ráðherra að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig draga megi úr auglýsingum og áróðri um óhollustu sem beint er að börnum.

Hollt mataræði Kannaður verður grundvöllur fyrir samvinnu heilbrigðisyfirvalda, matvælaframleiðenda og matvælaframreiðenda með það að markmiði að auka framboð af hollum matvörum og framleiða og framreiða mat í hóflegum skammtastærðum. Þá verður sett gæðaviðmið fyrir fæði á öldrunarstofnunum og heimsendan mat.

Vímuefnavarnir Reykleysisaðstoð verður efld, sérstaklega fyrir barnshafandi konur og maka þeirra, og merkingar á tóbaksumbúðum verða endurskoðaðar með tilliti til nýjustu þekkingar. Þá verða áherslur Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar hafðar að leiðarljósi í öllu forvarnarstarfi gegn notkun tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna. Ráðherra styður tilraunaverkefnið „Ábyrgð öllum í hag“, samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar, ríkislögreglustjóra og fleiri, sem ætlar er að byggja upp ábyrgari veitingarekstur. Einnig styður ráðherra gerð fræðsluefnis um skaðsemi vímuefnanotkunar sem Lýðheilsustofnun stendur fyrir undir nafninu „Höldum heilanum hreinum“.

Tannheilsa Fræðsla um tannvernd verður aukin á öllum skólastigum, allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að komið verði á eftirlitskerfi, í samvinnu við tannlækna, þar sem ákveðnir árgangar barna og unglinga fá eftirlit og forvarnarmeðferð sér að kostnaðarlausu. Þá verður vægi tannverndar í öldrunarþjónustu aukið.

Víðtæk þverfagleg nálgun lykillinn að árangri

„Lykillinn að árangri á sviði forvarna er samstarf og víðtæk, þverfagleg nálgun sem byggir á þekkingu. Forvörnum er hægt að beita mjög víða í samfélaginu og það er nauðsynlegt við alla stefnumótun og ákvarðanatöku að sjónarmiða lýðheilsu verði gætt í ríkari mæli en verið hefur. Það er von mín og trú að með samstilltum aðgerðum stjórnvalda, félagasamtaka, atvinnulífs, verslunar og fólksins í landinu takist að efla lýðheilsu hér á landi þannig að bæði andlegt og líkamlegt heilbrigði þjóðarinnar batni. Með þetta að leiðarljósi eru áherslur mínar á sviði forvarna og heilsueflingar lagðar fram,“ segir Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Myndir frá kynningarfundinum:

Anna Elísabet Ólafsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Geir Gunnlaugsson.


Anna Björg Aradóttir, Yfirhjúkrunarfræðingur á Gæða- og lýðheilsusviði hjá Landlæknisembættinu.