Fréttatilkynning frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og LSH

Mynd af frétt Fréttatilkynning frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og LSH
09.11.2006

Framundan er  breyting á skipulagi mæðraverndar á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að heilbrigðar þungaðar konur sæki mæðravernd til nærliggjandi heilsugæslustöðva en konur sem skilgreindar hafa verið með áhættuþætti sækja mæðravernd til LSH þar sem sérhæft eftirlit fæðingarlækna og ljósmæðra fer fram.

Á síðustu árum hefur hlutverk, annars vegar heilsugæslunnar og hins vegar LSH, við mæðravernd verið að skýrast.  Heilbrigðar konur hafa í auknum mæli sótt þjónustu til heilsugæslunnar en konur sem eru með áhættu í meðgöngu hafa leitað til Miðstöðvar mæðraverndar og á LSH. Framvegis er gert ráð fyrir að heilbrigðar konur njóti  þjónustu ljósmóður og læknis á sinni heilsugæslustöð, þar sem lögð er áhersla á samfellda þjónustu. Starfið á heilsugæslustöðvunum verður eflt enn frekar og mun njóta öflugs stuðnings Miðstöðvar mæðraverndar.
Hlutverk Miðstöðvar mæðraverndar verður að styðja við mæðravernd á heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu með áherslu á ráðgjöf, fræðslu og faglegan stuðning við starfsfólk heilsugæslustöðva.  Hún verður vettvangur þróunar og rannsókna og tengiliður við LSH.

Ákveðinn hópur kvenna þarf hins vegar á sérhæfðu eftirliti á meðgöngu að halda og verður því sinnt á kvennasviði LSH. Sérstök móttaka verður starfrækt við spítalann fyrir konur í áhættu.
Hlutverk LSH er að tryggja konum, sem greindar hafa verið með áhættu í meðgöngu, þjónustu þeirra fagstétta sem þörf er á hverju sinni og aðstöðu til frekari meðferðar.

Með þessum breytingum er unnið að því markvisst að konur sæki þjónustu á því þjónustustigi sem við á hverju sinni.

Þessar breytingar taka gildi 24. nóvember og vonast er til að sem minnst röskun verði á þjónustu við þungaðar konur. Starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og kvennasviðs LSH mun kappkosta að þessi breyting gangi sem greiðast fyrir sig.

Frekari upplýsingar veita starfsmenn Heilsugæslunnar í síma 585-1400 og LSH í síma 543-3330.