Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeið vegna foreldranámskeiða

Mynd af frétt Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeið vegna foreldranámskeiða
15.09.2006

Athugið að örfá pláss eru laus á Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeiðið á MHB dagana 13. og 14. nóv. nk. Þátttaka á námskeiðinu veitir réttindi til að halda foreldranámskeiðin Uppeldi sem virkar - Færni til framtíðar. Ekki eru fyrirhuguð fleiri námskeið í nánustu framtíð. Nánari upplýsingar í síma 585 1350 og hér

Á Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeiðinu eru kynntar aðferðir og hugmyndafræði Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar og farið rækilega í skipulag, framkvæmd og innihald samnefndra foreldranámskeiða. Nánari upplýsingar um foreldranámskeiðið og helstu áhersluþætti sem það byggir á fást í sérstökum kynningarbæklingi. Nefna má til dæmis að rík áhersla er á notkun jákvæðra aðferða, á gildi fyrirmynda, á markvissa kennslu æskilegrar hegðunar og á nauðsyn fyrirhyggju, skipulags og samkvæmni í uppeldi.

Á Leiðbeinenda- og ráðgjafanámskeiðinu er einnig fjallað um uppeldi og uppeldisráðgjöf almennt og farið í hagnýtt efni sem miðar að því að auka færni þátttakenda í að veita árangursríka ráðgjöf um uppeldi bæði til foreldra og starfsfólks.

Námskeiðið er ætlað fagfólki sem í starfi sínu sinnir uppeldisráðgjöf og/eða er í beinum tengslum við börn á ýmsum aldri. Þátttaka á námskeiðinu veitir einnig réttindi til að verða leiðbeinandi á uppeldisnámskeiðum fyrir foreldra og að nota öll þar til gerð námskeiðsgögn. Foreldranámskeiðin eru þegar haldin reglulega á vegum heilsugæslu og/eða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Hagnýtar upplýsingar

■ Þátttakendur: Námskeiðið stendur til boða fagfólki með menntun á uppeldis- eða heilbrigðissviði sem starfar við uppeldi barna og/eða við ráðgjöf og fræðslu um uppeldi til foreldra eða starfsfólks. Hámarksfjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er 20.

■ Tími: Nóvember 2006, mánudagur 13.11. kl. 10:00 – 16:00 og þriðjudagur 14.11. kl. 8:30 – 14:30. Samtals 12 klukkustundir.

■ Staður: Heilsuverndarstöð Reykjavíkur við Barónsstíg 47, fræðslusalur á 5. hæð. Gengið inn yfir brúna.

■ Þátttökugjald: Námskeiðsgjald er aðeins kr. 12.000 og eru námskeiðsgögn og kaffiveitingar innifalið.

■ Skráning: Skráning er í afgreiðslu Miðstöðvar heilsuverndar barna í síma 585 1350 eða með tölvupósti á barnapostur@hr.is.

■ Leiðbeinendur: Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur og Lone Jensen uppeldisráðgjafi.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má fá í síma 585 1350 eða hjá Gyðu gydah@hr.is  Námskeiðin Uppeldi sem virkar - Færni til framtíðar voru unnin sem sérstakt átaksverkefni á Miðstöð heilsuverndar barna með stuðningi ýmissa einstaklinga og stofnana, svo sem Áfengis- og vímuvarnaráðs, Fjölskylduráðs, Félagsmálaráðs Kópavogs, Forvarnanefndar Reykjavíkur, Landlæknisembættisins og Menntamálaráðuneytis.
Hluti af verkefninu var þýðing og útgáfa bókarinnar: Uppeldisbókin - Að byggja upp færni til framtíðar og byggir innihald að miklu leyti á henni. Aðalhöfundur námskeiðanna er Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur.
Nánari upplýsingar um foreldranámskeiðin eru í kynningarbæklingi sem fæst á MHB og er á heimasíðu heilsugæslunnar.