Rannsóknasamningur

Mynd af frétt Rannsóknasamningur
04.05.2006

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Landspítali háskólasjúkrahús hafa endurnýjað samning um læknisfræðilegar rannsóknir til ársloka 2008. Kaupir Heilsugæslan samkvæmt samningnum af LSH rannsóknir á sviði blóðmeinafræði, erfðafræði, klínískrar lífefnafræði, sýklafræði, veirufræði og ónæmisfræði fyrir flestar af starfsstöðvum sínum á höfuðborgarsvæðinu.

Flestar heilsugæslustöðvarnar á svæðinu hafa þegar verið tengdar með rafrænum hætti við FlexLab rannsóknakerfi LSH. Starfsmenn spítalans hafa aðstöðu til blóðsýnatöku á heilsugæslustöðvunum á ákveðnum tímum á morgnana.

Stefnt er að því á næstu mánuðum að læknar Heilsugæslunnar geti sent beiðnir um rannsóknir beint úr sjúkraskrárkerfinu Sögu og inn í rannsóknakerfi LSH. Niðurstöður rannsókna munu einnig berast til læknanna með rafrænum hætti, í sumum rannsóknaflokkum samdægurs, og færast um leið inn í Sögukerfið. Þá munu heilsugæslulæknar hafa rafrænan aðgang að niðurstöðum fyrri rannsókna sem gerðar hafa verið á vegum Heilsugæslunnar eða Landspítalans.

Með reglugerðarbreytingu árið 2001 var Heilsugæslunni gert að greiða af fjárheimildum sínum kostnað vegna ferilrannsókna sem starfsmenn stofnunarinnar efna til.

Fyrsti rannsóknasamningur stofnananna tveggja var gerður árið 2004.

Það voru forstjórar stofnananna, Guðmundur Einarsson, forstjóri HH, og Magnús Pétursson, forstjóri LSH, sem undirrituðu samninginn 3. maí 2006.