Samningur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Lýðheilsustöðvar

Mynd af frétt Samningur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Lýðheilsustöðvar
07.04.2006

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er 7. apríl ár hvert. Yfirskriftin í ár er ,,samstarf í þágu heilbrigðis”. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Lýðheilsustöð  nýttu þetta tilefni til að undirrita formlegan samstarfssamning á milli stofnananna tveggja til ársins 2010. Auk þess að styrkja tengsl stofnananna er markmið með samstarfinu að vinna að rannsóknar- og þróunarverkefnum til stuðnings heilsu barna á Íslandi. Miðstöð heilsuverndar barna annast framkvæmd samningsins f.h. Heilsugæslunnar.

Þegar eru hafin nokkur samstarfsverkefni þó ekki hafi verið undirritaður formlegur samningur þar um fyrr en nú. Má þar nefna gerð fræðsluefnis fyrir foreldra um næringu ungbarna, fræðsluefnis fyrir starfsfólk heilsugæslu og um tannvernd ungbarna. Ennfremur er samstarf um gerð fræðslu- og forvarnarefnis fyrir grunnskólabörn og foreldra þeirra, sem skólahjúkrunarfræðingar munu nýta í starfi sínu, og um útgáfu á rannsóknaverkefnum læknanema um lýðheilsu barna á Íslandi.  

Samningurinn var undirritaður af Guðmundi Einarssyni forstjóra, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Önnu Elísabetu Ólafsdóttur, forstjóra Lýðheilsustöðvar og Geir Gunnlaugssyni, forstöðumanni Miðstöðvar heilsuverndar barna. Á myndinni eru þau frá vinstri: Geir Gunnlaugsson, Anna Elísabet Ólafsdóttir og Guðmundur Einarsson.