Bólusetningar eru frábær forvörn

Hvað er bólusetning?

Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda litlum einkennum en vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að hinn bólusetti veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn.

Börn eru bólusett gegn alvarlegum sjúkdómum sem áður fyrr urðu mörgum að fjörtjóni. Fullorðnir geta líka nýtt sér kostina sem fylgja bólusetningu og minnkað þannig líkurnar á smiti á alvarlegum sjúkdómum á ferðalögum til framandi staða. Þegar aldurinn fer að færast yfir (60+) er ráðlegt að minnka líkur á lungnabólgu og inflúensu með bólusetningum.

Allar hefðbundnar bólusetningar á heilsugæslustöðinni þinni.

Pantaðu tíma í móttöku hjá hjúkrunarfræðingi til fá bólusetningar.

Á mínum síðum Heilsuveru er yfirlit bólusetninga sem þú hefur fengið og þú getur líka haft samband við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöðinni þinni sem fer yfir þetta með þér og ráðleggur þér.

Nánari upplýsingar um mismunandi bólusetningar eru hér fyrir neðan og þú getur lesið meira um bólusetningar í Heilsuveru.

Bólusetningar barna og unglinga

Hér má sjá yfirlit yfir bólusetningar í ung- og smábarnavernd og heilsuvernd skólabarna eftir mismunandi aldri:

 Aldur

 Bólusetning gegn:

 3 mánaða kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu.
 5 mánaða  kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu
 12 mánaða kíghósta, barnaveiki, stífkrampa, haemofilus influenzae sjúkdómi gerð b (Hib) og mænusótt í einni sprautu, pneumókokkum í annarri sprautu og meningókokkum C  í þriðju sprautu
 18 mánaða mislingum, hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu og hlaupabólu í annarri sprautu
 2 og 1/2 árs hlaupabólu
  4 ára kíghósta, barnaveiki og stífkrampa í einni sprautu
 12 ára  mislingum, hettusótt og rauðum hundum í einni sprautu. HPV, tvær sprautur gefnar með a.m.k. 6 mánaða millibili 
 14 ára barnaveiki, stífkrampa og kikhósta ásamt mænusótt í einni sprautu

 

Ferðamannaheilsuvernd er síbreytileg

Bólusetningar fara bæði eftir ferðinni, t.d. áfangastað og ástandinu þar, dvalarlengd og tegund ferðar, og ferðamanninum sjálfum, t.d. fyrri bólusetningum, sjúkdómum og ofnæmi.

Allar almennar ferðamannabólusetningar eru framkvæmdar í Þönglabakka 1Netspjall á heilsuvera.is svarar fyrirspurnum um bólusetningar 

Best er að huga að bólusetningu að minnsta kosti mánuði fyrir brottför. 

Hafið með skírteini um fyrri bólusetningar vegna ferðalaga. Einnig er hægt að sjá yfirlit yfir bólusetningar á Mínum síðum Heilsuveru

Nánari upplýsingar:

Árstíðabundin inflúensa

Hvað er inflúensa, hver eru einkennin og hvenær kemur hún?

Inflúensa er veirusýking sem einkennist af háum hita, þurrum hósta, höfuðverk, beinverkjum, oft með hálssærindum og nefrennsli. Einkennin koma snögglega. Árviss faraldur af völdum inflúensu A og oftast einnig af völdum inflúensu B hefst oft í desember eða janúar, en stöku tilfelli greinast stundum fyrr. Gera verður ráð fyrir að upphaf inflúensufaraldurs geti verið allt frá október til mars. Yfirleitt tekur 2–3 mánuði fyrir faraldur að ganga yfir.

Er inflúensan hættuleg? 

Hætta á alvarlegum fylgikvillum inflúensu er mest meðal aldraðra og fólks með bælt ónæmiskerfi, en inflúensan leiðir á hverju ári til dauðsfalla meðal eldri borgara.

Hverjum er einkum ráðlagt að láta bólusetja sig?

  • Öllum sem orðnir eru 60 ára
  • Öllum, bæði börnum og fullorðnum, sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmönnum sem daglega annast fólk með aukna áhættu, sbr. ofantalið.
  • Þunguðum konum

Þeir sem tilheyra ofangreindum hópum fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu en greiða þó komugjald

Hversu mikil vörn er í bólusetningu?

Búast má við að bólusetning geti veitt a.m.k. 60-70% vörn gegn sjúkdómnum auk þess sem hann verður vægari hjá þeim í hópi bólusettra sem veikjast. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að sem flestir verði bólusettir, ekki síst þeir sem tilheyra forgangshópum.

Bent skal á að vel má láta bólusetja sig þó svo að inflúensufaraldur sé hafinn því einungis tekur um 1-2 vikur að mynda verndandi mótefni eftir bólusetningu. 

Ef þú þarft að fá ráðleggingar, hafðu þá samband við heilsugæslustöðina þína.

Fyrirkomulag

Inflúensubólusetning hefst oftast í lok september. Fyrirkomulag er mismunandi eftir heilsugæslustöðvum og upplýsingar um það eru á forsíðum heilsugæslustöðvanna.

 

Bólusetningar gegn pneumókokkum

Pneumókokkar, Streptococcus pneumoniae, eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum einkum hjá ungum börnum og fullorðnum einstaklingum. 

Lungnabólga er algengasti sjúkdómurinn sem pneumókokkar valda hjá fullorðnum einstaklingum. 

Bólusetningar fullorðinna

  • Mælt er með að allir einstaklingar 60 ára og eldri fái eina bólusetningu með fjölsykrubóluefni (Pneumovax®).
    Að öllu jöfnu er ekki mælt með fleiri bólusetningum hjá einstaklingum 60 ára og eldri.
  • Mælt er með að einstaklingar 19 ára og eldri, sem eru með aukna áhættu á alvarlegum pneumókokkasýkingum og sem ekki hafa fengið neina bólusetningu gegn pneumókokkum fái eina bólusetningu með próteintengdu bóluefni (Prevenar13®) og að auki bólusetningu með fjölsykrubóluefni (Pneumovax®) a.m.k. 8 vikum síðar.

    Ekki er mælt með frekari bólusetningu fyrr en við 60 ára aldur (fjölsykrubóluefni).

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?