Eflum samskipti og tilfinningaþekkingu

Vinasmiðjan er námskeið í samskiptafærni og tilfinningaþekkingu fyrir börn sem greinst hafa á einhverfurófi.

Vinasmiðjan er námskeið fyrir börn sem greinst hafa á einhverfurófi. Markmiðið er að efla samskipta- og tilfinningaþekkingu barnanna og er áhersla lögð á jákvæð samskipti við aðra. Nýlega var gerð rannsókn á árangri Vinasmiðjunnar að mati barna, foreldra og kennara sem lesa má hér

Á Geðheilsumiðstöð barna er boðið upp á námskeið í samskiptafærni og tilfinningaþekkingu sem heitir Vinasmiðjan. Námskeiðið er ætlað börnum sem greinst hafa á einhverfurófi og eru á miðstigi í grunnskóla (5. - 7. bekk). Hópurinn hittist tvisvar í viku, í einn og hálfan tíma í senn í fimm vikur (9 skipti alls). Þátttakendur eru sex og tveir sálfræðingar sjá um kennslu. 

Markmið námskeiðsins er að efla samskiptafærni og tilfinningaþekkingu barnanna. Áhersla er lögð á jákvæð samskipti við aðra. Tekin er fyrir mismunandi færni sem er nauðsynleg í samskiptum, eins og að þekkja og nefna tilfinningar, svipbrigði og raddblæ, að hefja samræður og halda þeim uppi, að bregðast við stríðni, að tala í síma og vinna í hópi. Í lok námskeiðs er farið á veitingastað til að æfa þá færni sem lögð hefur verið inn á námskeiðinu.

Hver tími hefur sitt markmið og unnið er á fjölbreyttan hátt t.d. með fræðslu, hópavinnu, æfingum og hlutverkaleikjum. Eftir hvern tíma fá foreldrar útbýti með heimaæfingum sem mikilvægt er að þeir æfi með börnum sínum. Það eykur líkur á að börnin tileinki sér þá færni sem kennd er á námskeiðinu.

Efni námskeiðsins byggir á gagnreyndri þekkingu á þeim færniþáttum sem unnið er með. 

Nánari upplýsingar um námskeiðið má fá með því að senda tölvupóst á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is

Við vekjum athygli á að fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Áður en námskeið hefst, er haldinn kynningarfundur fyrir foreldra þar sem farið er nánar í fyrirkomulag námskeiðs.  

Verð vegna námskeiðsgagna: 4000 kr.