Námskeiðið er ætlað börnum 8–12 ára með hamlandi kvíða og foreldrum þeirra.

Um námskeiðið

Klókir Krakkar (Cool Kids Program) er meðferðarúrræði sem var þróað hjá áströlsku rannsóknamiðstöðinni Macquire University Anxiety Research Unit (MUARU) í samvinnu við Ronald M. Rapee og samstarfsmenn hans. BUGL sá um að koma í gagnið íslenskri útgáfu  námskeiðsins 2005 og hefur það verið haldið þar og á Þjónustumiðstöðvum í Reykjavík síðastliðin ár.       ATH. Námskeiðið er ekki ætlað börnum á einhverfurófi

Hvert námskeið er 12 klukkustundir og skiptist i 8 skipti. kl. 15:30 - 17:00. Fyrstu 6 skiptin eru vikulega, síðan líður vika á milli fyrir tíma 7 og tíma 8.

Í upphafi meðferðar fá börn og foreldrar vinnubækur. Þau eru frædd um eðli kvíða og kenndar aðferðir til að takast smám saman á við kvíða barnanna. Börnunum er kennt að hugsa eins og einkaspæjari þar sem þau finna sannanir fyrir óraunsæjum kvíðahugsunum og læra að hugsa á raunsæjan hátt. Einnig er farið í stigvaxandi berskjöldun þar sem börnin læra að mæta óttanum í litlum skrefum. 

Í seinni hluta meðferðarinnar er farið í félagslega færni og ákveðniþjálfun. Foreldrar fá fræðslu um kvíðaeinkenni og úrræði, hvernig er að ala upp barn sem þjáist af kvíða og farið er yfir hvað börnin læra í hverjum tíma fyrir sig. 

Fyrirkomulag

Námskeiðið er ætlað börnum 8–12 ára með hamlandi kvíða og foreldrum þeirra. Gert er ráð fyrir 7 - 8 börnum á hverju námskeiði og munu þrír sálfræðingar stýra hverjum tíma. Börnin vinna saman í hóp með tveimur sálfræðingum og foreldrar vinna í öðrum hópi með einum sálfræðing. Börnin vinna sér þar að auki inn smá umbun í hverjum tíma fyrir þátttöku, heimaverkefni og fleira.  

Námskeiðsgjaldið er kr. 22.000, námskeiðsgögn innifalin.

 

Næsta námskeið

Sem stendur er biðlisti Klókra krakka námskeiðsins orðinn mjög langur og víð náum því miður ekki að anna eftirspurninni. Það verður því ekki fleiri börnum bætt við biðlistann í bili. Ef þú hefur hug á Klókir krakkar námskeiði fyrir barnið þitt er hægt að leita til skólaþjónustu um hvort námskeiðið sé í boði hjá þeim.

Fyrirspurnum er svarað á netfanginu throski@heilsugaeslan.is.