Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi

Mynd af frétt Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi
09.11.2020

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breyta skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum á Íslandi í kjölfar tillagna skimunarráðs. Markmið breytinganna er að færa verklag nær því skipulagi sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum. 

Skimun fyrir brjóstakrabbameini

Landspítala hefur verið falin framkvæmd skimana fyrir krabbameini í brjóstum frá 1. janúar 2021 í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Fyrst um sinn fer þjónustan fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8. Á vormánuðum flyst hún  á Eiríksgötu 5.

Skimun fyrir leghálskrabbameini 

Heilsugæslunni hefur verið falin framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Á  höfuðborgarsvæðinu mun hún fara fram á öllum 19 heilsugæslustöðvunum frá og með 1. janúar 2021. Á landsbyggðinni verður skimunin á heilsugæslustöðvunum með sama hætti og undan farin ár.  

Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar, sem hafa hlotið sérstaka þjálfun, munu taka leghálssýni á öllum 19 heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu með sama hætti og ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa gert á heilsugæslustöðvunum á landsbyggðinni frá árinu 2015. 

Heilsugæslan mun í samvinnu við kvennadeild Landspítala og kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri sinna og fylgja eftir konum sem þurfa nánari greiningu og eftirlit vegna ákveðinna frumubreytinga í leghálsi. 

Konur með einkenni frá brjóstum og kvenlíffærum

Konum með einkenni frá brjóstum og kvenlíffærum er ráðlagt að leita til læknis. 
Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er forvörn sem býðst einkennalausum konum.  

Boð í skimun

Öllum konum á Íslandi verður boðin skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi í samræmi við skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis. Miðað er við að konum sé boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini að jafnaði á tveggja ára fresti og konum sé boðin skimun fyrir leghálskrabbameini að jafnaði á fimm ára fresti. 

Panta tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini 

Konur geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini þegar boðsbréf berst, hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana í síma 513-6700 milli kl. 8:30 og 12:00 alla virka daga frá og með 6. janúar 2021 eða með því að senda tölvupóst á krabbameinsskimun@heilsugaeslan.is. Í framtíðinni er stefnt að því að allar konur geti bókað eða breytt tíma á Heilsuvera.is. 

Panta tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini 

Konur jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem landsbyggðinni munu geta pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á Heilsuvera.is eða með símtali við sína heilsugæslustöð eftir 4. janúar 2021. 

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar er að finna hér á vefnum og hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana í síma 513-6700 sem tekur til starfa 6. janúar 2021.