Mikil ánægja mælist með þjónustu Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í könnun Sjúkratrygginga Íslands. Um 82 prósent þeirra sem nýttu sér síman 1700 voru ánægð með þjónustuna og 72 prósent þeirra sem nýttu netspjallið á Heilsuveru.
Sjúkratryggingar Íslands kanna reglulega afstöðu notenda til þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Það er gert með því að senda þeim sem koma á heilsugæslustöðvar stofnunarinnar, á Geðheilsumiðstöð barna og Heilaörvunarmiðstöðina hlekk á þjónustukönnun eftir komuna.
Frá miðju ári til loka nóvember 2025 voru þeir sem komu á heilsugæslustöðvar HH spurðir sérstaklega um þjónustu Upplýsingamiðstöðvar HH. Starfsfólk miðstöðvarinnar svarar meðal annars símtölum í síma 1700 og netspjallinu á Heilsuveru.
Mikil ánægja reyndist með þjónustuna hjá þeim sem höfðu gert það. Um 82 prósent sögðust mjög eða fremur ánægð með þjónustu 1700-símans, en um 6 prósent sögðust mjög eða fremur óánægð.
Um 72 prósent voru ánægð með þjónustu sem þau fengu í netspjallinu, en 11 prósent óánægð.

Ánægja með góða og faglega þjónustu
„Það er mjög ánægjulegt að sjá þessar tölur, sem staðfesta að almenningur er ánægður með þá góðu og faglegu þjónustu sem starfsfólk Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins veitir,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri HH.
Markmiðið með starfsemi Upplýsingamiðstöðvarinnar er að veita faglega ráðgjöf vegna bráðra erinda óháð búsetu í gegnum símanúmerið 1700 og netspjallið á Heilsuveru. Þar starfa reyndir hjúkrunarfræðingar sem meta þau erindi sem berast.
Fjöldi símtala og netspjalla hefur aukist jafnt og þétt. Undanfarið hefur starfsfólk miðstöðvarinnar svarað fleiri en þúsund erindum á degi hverjum. Svarað er í síma 1700 allan sólarhringinn en netspjallið er opið á dagvinnutíma.
Á miðstöðinni starfa bæði fastráðnir starfsmenn og starfsfólk í tímavinnu, alls um 90 einstaklingar. Þeir eru flestir í hlutastarfi eða tímavinnu og stöðugildin því færri, eða samtals um 33 talsins.
Símaráðgjöf oft nóg
„Við sjáum að í þremur af hverjum fjórum tilvikum er ráðgjöf frá okkar starfsfólki nóg til að leysa úr erindum,“ segir Ingibjörg Rós Kjartansdóttir, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar HH. „Það er auðvitað mjög gott fyrir skjólstæðingana, sem fá þá þjónustu sem þeir þurfa án þess að þurfa að mæta á heilsugæslustöð. Þetta er líka jákvætt fyrir starfsfólk stöðvanna þar sem með þessu fækkum við óþarfa komum. Starfsfólkið fær því betra ráðrúm til að sinna þeim sem þurfa hjálp.“
Þegar hjúkrunarfræðingar Upplýsingamiðstöðvar HH meta stöðu þess sem hringir eða sendir netspjall þannig að viðkomandi þurfi að koma bóka þeir tíma á heilsugæslustöð samdægurs eða daginn eftir. „Það er liðin tíð að fólk þurfi að mæta á biðstofuna, veikt eða með veik börn, og bíða eftir því að fá þjónustu,“ segir Ingibjörg Rós. „Nú fær fólk bókaðan tíma og þegar það mætir á staðinn veit starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar erindið og getur unnið hraðar og markvissar.“
