Foreldrum og öðrum umönnunaraðilum barna á aldrinum 5 til 12 ára sem glíma við kvíða stendur til boða að taka þátt í nýrri netmeðferð. Þar er meðal annars farið yfir aðferðir til að aðstoða börnin við að ná tökum á vandanum.
Meðferðin hefur hlotið heitið FLIKK, sem stendur fyrir ForeldraLausn og Internetmeðferð fyrir Kvíðna Krakka. Hún er rannsóknarverkefni sem unnið er í samvinnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskólans í Reykjavík. Verkefnið byggir á erlendum rannsóknum sem sýnt hafa fram á góðan árangur af slíkri meðferð.
- Rannsóknir sýna að allt að 30 prósent einstaklinga muni á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni þróa með sér kvíðaröskun.
- Kvíðaröskun er kvíði sem verður svo mikill að hann hindrar eða skerðir verulega daglegt líf.
- Helmingur allra kvíðaraskana þróast fyrir 12 ára aldur.
- Börn sem ekki fá faglega aðstoð eru í aukinni hættu að þróa með sér frekari geðrænan vanda seinna á lífsleiðinni.
FLIKK-meðferðin samanstendur af sjö meðferðarhlutum sem foreldrar vinna sjálfir í gegnum netið. Þá fá þátttakendur vikuleg samtöl frá sálfræðingi af heilsugæslustöð, auk eftirfylgd í mánuð eftir að meðferð lýkur.
Ekki þarf tilvísun til að skrá sig í meðferðina en foreldrar eða forráðamenn sem hafa áhuga á að taka þátt þurfa að svara nokkrum spurningum til að hægt sé að meta hvort meðferðin henti.
Frekari upplýsingar og hlekkur á skráningarsíðu er á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
