Hjartað í heilsugæslunni slær í Hlíðunum

Mynd af frétt Hjartað í heilsugæslunni slær í Hlíðunum
14.10.2025
„Heilsugæslan er hjartað í heilbrigðiskerfinu og starfsfólk hennar er púlsinn,“ sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra þegar hún ávarpaði starfsfólk og gesti við formlega opnun á starfsemi þriggja starfseininga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Skógarhlíð í dag.

Heilsugæslan Hlíðum hefur verið starfrækt í húsnæðinu um nokkurt skeið. Heilaörvunarmiðstöðin fluttist í húsnæðið á dögunum og nú í október fluttist Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana í þriðja rýmið í húsinu. Þar með hefur stofnunin tekið allt húsið á leigu undir sína starfsemi.

Alma fagnaði því sérstaklega að nú hafi Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana komist í húsnæði sem henti starfseminni jafn vel og raun ber vitni. Hún sagði ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á geðheilbrigðismál og reynslan sýni að góð aðstaða skipti miklu máli svo heilbrigðisstarfsemi blómstri.

Starfsandinn í hæstu hæðum

Ráðherra sagði Heilsugæsluna Hlíðum skýrt dæmi um hversu miklu það skipti að vera í góðu húsnæði. Stöðin var áður staðsett í gömlu húsnæði við Drápuhlíð, sem var allt of lítið fyrir starfsemina. Eftir flutning í nýtt húsnæði í Skógarhlíð hafi starfsandinn rokið upp og sé nú með því hæsta sem þekkist hjá starfsstöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði algjörlega skýrt að gott húsnæði sé gríðarlega mikilvægt. Dæmin sýni að það skipti máli fyrir starfsanda, stöðvum í góðu húsnæði haldist betur á starfsfólki og eigi auðveldara með að laða að sér gott starfsfólk. En fyrst og fremst séu það skjólstæðingarnir sem njóti þess að fá góða þjónustu í húsnæði sem sé sérstaklega hannað fyrir starfsemina.

Kynntu sér starfsemina

Eftir stutta opnunarathöfn fóru heilbrigðisráðherra og aðrir gestir í stutta kynningarferð um húsnæðið. Þar var meðal annars rætt um starfsemi Heilaörvunarmiðstöðarinnar, sem beitir sérhæfðri tækni til að taka á þunglyndi. 

Þá var gengið um nýinnréttað húsnæði Geðheilsumiðstöðvar taugaþroskaraskana. Miðstöðin sinnir einstaklingum 18 ára og eldri með alvarlegar eða óvenjulegar taugaþroskaraskanir, en fyrst og fremst þroskahömlun.

Að lokum var Ölmu og öðrum gestum boðið að ganga um Heilsugæsluna Hlíðum. Húsnæði stöðvarinnar var hannað sérstaklega fyrir heilsugæslustöð og þjónar því þörfum skjólstæðinga afar vel. Tæplega 15 þúsund skjólstæðingar eru skráðir á stöðina.