Þátttaka kvenna í skimun fyrir brjóstakrabbameini hefur aukist verulega undanfarin ár og þátttaka í leghálsskimunum hefur einnig verið á uppleið. Meðal nýunga í þjónustu eru opin hús og síðdegisopnanir þar sem boðið er upp á leghálsskimanir án tímabókana.
Samkvæmt gæðavísum sem embætti landlæknis hefur gefið út var þátttaka kvenna í skimun fyrir brjóstakrabbameini 61 prósent á síðasta ári. Það er umtalsverð aukning, en árið áður var hún 56 prósent. Konur á aldrinum 40 til 74 ára fá reglulega boð í skimun fyrir brjóstakrabbameini, en skimunin fer fram hjá Brjóstamiðstöð Landspítalans, á Sjúkrahúsinu á Akureyri og í færanlegri skimunarstöð sem fer reglulega um landið.
Þátttakan í skimun fyrir leghálskrabbameini hefur einnig aukist milli ára. Í fyrra tóku 64 prósent þátt en 62 prósent árið 2023. Konur á aldrinum 23 til 64 ára fá reglulega boð í leghálsskimun. Skimunin fer fram á heilsugæslustöðvum um land allt.
Enn verk að vinna
Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins heldur utan um krabbameinsskimanir á landinu öllu. Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir miðstöðvarinnar, skrifaði grein sem birtist á Vísi í gær þar sem hann fer yfir árangurinn og verkefnin framundan. Þar benti hann á að markmiðið er að þátttaka í skimunum verði að minnsta kosti 75 prósent og því sé enn verk að vinna.
„Til þess að auka þátttöku í skimunum þurfum við að ná til þeirra hópa sem eru ólíklegastir til að mæta í skimanir. Eins og undanfarin ár er þátttakan lökust meðal kvenna í yngstu aldurshópunum. Þá er einnig mikill munur á þátttöku eftir ríkisfangi, erlendar konur mæta mun síður í skimanir en konur með íslenskt ríkisfang,“ skrifaði Ágúst Ingi.
„Ef skoðuð er þátttaka kvenna í leghálsskimun eftir ríkisfangi þá má sjá að þátttaka kvenna með íslenskt ríkisfang nær markmiðinu um 75 prósent þátttöku og þátttaka íslenskra kvenna í brjóstaskimun fer nærri því markmiði. Það sem dregur þátttökuna niður er dræm þátttaka kvenna með erlent ríkisfang. Aðeins 31 prósent þess hóps kom í leghálsskimun og 23 prósent í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Hlutfallið er að aukast en þar þurfum við að gera enn betur.“
Í greininni fer Ágúst Ingi yfir hvernig reynt er að auka þekkingu á fyrirkomulagi krabbameinsskimana hjá konum af erlendum uppruna og bæta þátttöku þeirra í skimunum. „Við vitum að það má búast við því að hluti þessara kvenna mæti í skimanir fyrir krabbameinum í sínu heimalandi. Ef þær gera það ekki viljum við auðvitað að sem flestar fái þessa þjónustu hér á landi,“ skrifaði hann.
Opnir tímar og síðdegisopnun
Gott aðgengi er lykilatriði þegar kemur að skimunum. Allar upplýsingar um krabbameinsskimanir eru auðfundnar á vefnum skimanir.is. Auðvelt er að bóka tíma í leghálssýnatöku í gegnum Heilsuveru og einnig fljótlegt og auðvelt að bóka tíma í brjóstaskimun hjá Brjóstamiðstöð Landspítalans.
Það hefur einnig gefið góða raun að bjóða upp á opna tíma í leghálssýnatöku á heilsugæslustöðvum. Þar geta konur sem hafa fengið boð mætt á stöð sem hentar þeim án þess að bóka tíma, í sumum tilvikum eftir hefðbundinn vinnutíma. Upplýsingar um opnu húsin eru aðgengilegar á vefnum skimanir.is.
Ætla að fara en fresta því
Kannanir sýna að langflestar konur vilja mæta í krabbameinsskimanir og ætla sér að fara í skimun þegar boð berst. Ástæðan fyrir því að hluti kvenna sem fær boð fer ekki í skimun er þannig ekki sú að þær vilji ekki fara heldur frekar sú að þær fresti því að fara af einhverjum ástæðum. Þegar það er mikið að gera er oft erfitt að koma því í verk að fara í skimun.
„Skimanir fyrir krabbameini eru gríðarlega mikilvægar til að draga úr sjúkdómsbyrði og dauðsföllum af völdum krabbameina. Spár fyrir næstu ár og áratugi gera ráð fyrir því að nýgengi krabbameina aukist verulega. Það skiptir því sífellt meira máli að koma í skimun þegar boðið berst,“ skrifaði Ágúst Ingi að lokum.
Greinin eftir Ágúst Inga er aðgengileg í heild sinni á Vísi.
Gæðavísar embættis landlæknis eru aðgengilegir á síðu embættisins.