Bólusetningar við inflúensu hefjast 14. október

Mynd af frétt Bólusetningar við inflúensu hefjast 14. október
09.10.2025

Árviss bólusetning gegn inflúensu hefst á öllum heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þriðjudaginn 14. október. Fólk getur bókað tíma á mínum síðum á Heilsuveru eða með því að hringja í sína heilsugæslustöð. 

Í október verður lögð áhersla á að bólusetja fólk í forgangshópum. Þeim sem ekki eru í forgangshópum verður boðið upp á bólusetningu í nóvember.

Þeir hópar sem eru í forgangi í bólusetningu við inflúensu eru:

  • Fólk 60 ára og eldra.
  • Börn fædd 1. janúar 2021 til 30. júní 2025 sem hafa náð sex mánaða aldri þegar bólusett er.
  • Börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, offitu, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Barnshafandi konur.
  • Heilbrigðisstarfsfólk sem annast fólk í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Fólk í starfstengdri áhættu vegna samsmits árlegrar inflúensu og fuglainflúensu eins og það var skilgreint í frétt frá embætti landlæknis frá árinu 2023.

Mikilvægt er að muna að koma í stuttermabol innan klæða í bólusetninguna.

Ekki bólusett við Covid

Ekki verður boðið upp á bólusetningu gegn Covid samhliða bólusetningu gegn inflúensu samkvæmt tilmælum sóttvarnarlæknis. Nánar má lesa um stöðu bólusetninga gegn Covid á vef embættis landlæknis.