Börn og veikir eða slasaðir bangsar þeirra eru boðin velkomin á Bangsaspítalann laugardaginn 20. september milli klukkan 10 og 16.
Um er að ræða árlegan viðburð þar sem börnum, ásamt foreldrum og forráðamönnum, er boðið í heimsókn á heilsugæslustöðvar. Tilgangurinn er bæði að fyrirbyggja hræðslu hjá börnum við lækna og heilbrigðisstarfsfólk og að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti sín við börn og aðstandendur.
Þetta árið bjóða fjórar heilsugæslustöðvar börnunum í heimsókn:
- Heilsugæslan Efstaleiti
- Heilsugæslan Seltjarnarnesi
- Heilsugæslan Sólvangi
- Heilsugæslan Höfða
Heimsóknin fer þannig fram að hvert barn kemur með sinn eigin bangsa. Gott er að ræða fyrir fram við barnið um hvað amar að bangsanum. Til dæmis hvort hann sé með hálsbólgu, magapest eða brotinn fót.
Þegar á heilsugæsluna er komið fær barnið að innrita bangsann og að því loknu kemur bangsalæknir og vísar barninu inn á læknastofu þar sem bangsalæknir skoðar bangsann og veitir honum þá aðhlynningu sem hann þarf á að halda. Óþarfi að panta tíma, bara mæta með góða skapið.