Hröð uppbygging og unnið að styttingu biðlista

Mynd af frétt Hröð uppbygging og unnið að styttingu biðlista
12.09.2024
Mikil aukning hefur verið á eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu við börn undanfarin ár. Þrátt fyrir hraða uppbyggingu þjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur bið eftir þjónustu aukist.

Eins og fram kemur í samantekt Umboðsmanns barna hefur börnum sem bíða eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna (GMB) fjölgað. Í ágúst 2024 biðu 2020 börn hjá GMB samanborið við 738 í desember 2021. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga að 18 ára aldri. Hún heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu. 

„Við höfum unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn. Starfsfólki hefur fjölgað mikið og heilbrigðisyfirvöld aukið fjárveitingar til málaflokksins. Því miður hefur uppbyggingin ekki náð að halda í við gríðarmikla aukningu í eftirspurn eftir þjónustunni, þrátt fyrir aukin afköst með fjölgun starfsmanna og breytingu á verkferlum og vinnulagi,“ segir Íris Dögg Harðardóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Það er ekki ásættanlegt að börn bíði jafn lengi og raunin er eftir geðheilbrigðisþjónustu. Við erum sífellt að leita leiða til að stytta biðtíma eftir þjónustu og auka samvinnu milli þjónustustiga,“ segir Íris.

Starfsfólki hjá GMB hefur fjölgað úr 34 stöðugildum í september 2022 í 47 stöðugildi í dag. Greiningarvinnan sem unnin er á miðstöðinni er tímafrek og mikilvægt að vanda til verka, enda greiningin oft undirstaða meðferðar í kjölfarið. 

Fjöldi tilvísana tvöfaldast á tveimur árum

Á árinu 2021 barst alls 701 tilvísun til GMB, eða um 61 á mánuði. Á árinu 2023 voru tilvísanirnar alls 1.613, eða 134 á mánuði að meðaltali. Fjöldi tilvísana tvöfaldaðist því á tveimur árum. Óstaðfestar tölur frá fyrstu átta mánuðum ársins 2024 benda til þess að tilvísunum sé enn að fjölga. Á síðustu 12 mánuðum hafa verið tekið inn 73 ný mál á mánuði að meðaltali hjá miðstöðinni, um helmingi færri en tilvísanir.

Ýmsar skýringar eru á því hvers vegna svo mikil aukning hefur verið í tilvísunum til GMB. Vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu um mikilvægi geðheilsu. Foreldrar og starfsfólk skóla eru meðvitaðri um frávik í þroska og líðan barna. Vanlíðan barna virðist hafa aukist undanfarin ár meðal annars vegna aukinna áhrifa samfélagsmiðla og skjánotkunar auk þess sem heimsfaraldur Covid-19 hafði áhrif á líðan barna og ungmenna.

Svipuð aukning sést þegar litið er til annarrar þjónustu við börn hjá öðrum heilbrigðisstofnunum og sjálfstætt starfandi  fagfólki, sem og hjá þjónustumiðstöðvum og hjá barnavernd. 

Vel gengið að stytta bið á heilsugæslustöðvum 

Sálfræðingar eru nú starfandi á flestum heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Alls biðu 209 börn eftir þjónustu sálfræðinga á heilsugæslustöðvum í ágúst síðastliðnum. Mikill árangur hefur náðst í að stytta biðina á undanförnum árum, en rúmlega 600 börn biðu eftir þessari þjónustu í ágúst 2022. Áfram verður unnið að því að auka þjónustuna og stytta biðina.