Góður árangur af TMS-meðferð við einkennum þunglyndis

Mynd af frétt Góður árangur af TMS-meðferð við einkennum þunglyndis
10.06.2024

Góður árangur hefur náðst hjá sjúklingum sem glíma við meðferðarþrátt þunglyndi með TMS-meðferð sem veitt er á Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Meðferðin hentar þeim sem ekki hafa náð árangri með hefðbundnum aðferðum, til að mynda lyfjagjöf og samtalsmeðferð.

Frá og með apríl síðastliðnum hefur Heilaörvunarmiðstöðin á að skipa tveimur meðferðartækjum sem notuð eru við segulörvun en frá og með haustinu verða tækin orðin þrjú auk þess sem starfsemin flyst þá í nýtt húsnæði að Skógarhlíð 18 Reykjavík. TMS-meðferðin byggir á endurtekningu og krefst þess að skjólstæðingar mæti í meðferð alla virka daga í fjórar til sex vikur. 

Árangur meðferðarinnar er almennt góður þar sem á milli 60 og 70 prósent hafa haft mikinn ávinning af meðferðinni en um 20 prósent skjólstæðinga losna alveg við einkenni þunglyndis. Sumir finna fljótt fyrir breytingu á líðan á meðan áhrifin koma seinna hjá öðrum.

Miðstöðin er nýleg eining innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er rekstur hennar fjármagnaður út árið samkvæmt samkomulagi við heilbrigðisráðuneytið. Samtal er í gangi til að tryggja miðstöðinni fjármögnun til framtíðar, enda mikilvægt úrræði fyrir sjúklinga með meðferðaþrátt þunglyndi.

Fjallað var um starfsemi Heilaörvunarmiðstöðvarinnar í Kastljósi nýverið, myndin sem fylgir þessari frétt var tekin úr þeirri umfjöllun.