Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi

Mynd af frétt Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
24.04.2024

Vitundarvakningu um bólusetningar barna á Íslandi var ýtt úr vör í Heilsugæslunni Efra Breiðholti í hádeginu í dag.

Unicef, sótt­varna­svið embættis land­lækn­is og Control­ant efna til vit­und­ar­vakn­ing­ar­inn­ar en bak­slag hef­ur orðið í lyk­il­bólu­setn­ing­um barna víða um heim á síðastliðnum árum, þar á meðal á Íslandi.

Bólusetningar bjarga 6 lífum á hverri mínútu

Bólusetningar eru ein mikilvægasta og árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að börn veikist alvarlega eða deyi af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir, sjúkdóma á borð við mislinga, mænusótt, stífkrampa, barnaveiki og kíghósta. Bóluefnin vernda ekki einungis einstaklinginn sem fær bólusetningu heldur stuðla einnig að hjarðónæmi og koma þannig í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma til þeirra sem hafa ekki fengið bólusetningu, til dæmis vegna skerts ónæmiskerfis eða skorts á aðgengi að bóluefnum. 

Samkvæmt nýjum tölum frá UNICEF og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hafa bólusetningar bjargað 6 lífum á hverri einustu mínútu á síðustu 50 árum, 154 milljónum einstaklinga samanlagt. Árangur bólusetninga á Íslandi er einnig verulegur en samkvæmt gögnum sóttvarnalæknis má áætla að um 2,500 lífum ung- og smábarna hafi verið bjargað frá 1950 með almennum bólusetningum. 
Í dag geta bóluefni verndað börn og fullorðna gegn hátt í 20 alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum. Þessum árangri ber að fagna en á sama tíma benda UNICEF, sóttvarnalæknir og Controlant á að það er mikilvægt að taka þessum árangri ekki sem gefnum og sofna ekki á verðinum. 

Þátttaka ófullnægjandi til þess að hindra útbreiðslu mislinga

Í nýjustu gögnum sóttvarnalæknis um þátttöku í almennum bólusetningum barna á Íslandi kemur fram að þátttaka hefur dregist saman um allt að 6% á fjögurra ára tímabili frá 2018 til 2022. Til að mynda er viðvarandi dræm þátttaka fjögurra ára barna í viðhaldsbólusetningu gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa, en hún hefur dregist saman úr 93% frá 2018 í 87% árið 2022. Þátttaka í bólusetningu gegn mislingum-, hettusótt- og rauðum hundum hefur einnig farið dvínandi. Þátttaka í fyrsta af tveimur skömmtum var 94% árið 2018 en 91% árið 2022 og þátttaka í öðrum skammti dróst saman úr 95% árið 2018 í 89% 2022. Bólusetningarþátttaka er því ófullnægjandi til að hindra útbreiðslu meðal barna ef mislingar berast til landsins. 

Um þúsund börn misst af bólusetningu

Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 ýttu undir mestu afturför í bólusetningum barna á heimsvísu í þrjá áratugi og hafði heimsfaraldurinn einnig áhrif á aðgengi og afkastagetu í almennum bólusetningum hér á landi. Frá upphafi heimsfaraldursins hafa tvöfalt fleiri börn á Íslandi misst af fjögurra ára bólusetningu árlega miðað við meðalár fyrir heimsfaraldur. Tæplega eitt þúsund börn sem hefði átt að bólusetja við mislingum árið 2020 misstu af bólusetningunni og flest þeirra hafa enn ekki verið bólusett. 

„Þökk sé góðri þátttöku í almennum bólusetningum um nokkurra kynslóða skeið höfum við verið að mestu laus við sjúkdóma s.s. mislinga, hettusótt og kíghósta áratugum saman. Sama á ekki við um mörg Evrópulönd sem hafa átt við t.d. stóra mislingafaraldra endurtekið undanfarin 5-6 ár. Það sem af er þessu ári hafa allir þessir sjúkdómar borist til landsins en þökk sé bólusetningum hafa hvorki mislingar né hettusótt náð víðtækri útbreiðslu. Til að stuðla að því að áfram verði lítil útbreiðsla þótt sjúkdómarnir berist hingað hefur nýtt vefsvæði verið opnað til að auðvelda aðgengi að upplýsingum um fyrirkomulag almennra bólusetninga á Íslandi og hvar þær fara fram o.fl. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á fjölda tungumála, þ.á m. rúmensku, úkraínsku og arabísku,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga hjá sóttvarnasviði embætti landlæknis. 

Vegg­spjald á tíu tungu­mál­um

Til að vekja at­hygli á átak­inu hafa Unicef, Control­ant og embætti land­lækn­is út­búið vegg­spjald á tíu tungu­mál­um með upp­lýs­ing­um um hvernig hægt er að nálg­ast upp­lýs­ing­ar um bólu­setn­ing­ar og fara með börn­in sín í bólu­setn­ing­ar.

Einnig opnaði nýtt vefsvæði á vef embætti landlæknis með upplýsingum um almennar bólusetningar barna á fjölda tungumála: