Kíghósti greinst á höfuðborgarsvæðinu

Mynd af frétt Kíghósti greinst á höfuðborgarsvæðinu
18.04.2024

Kíghósti hefur greinst hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu. Sumir þeirra hafa verið með einkenni frá því í mars en aðrir skemur. Ljóst er að sýkingin hefur náð útbreiðslu, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. 

Kíghósti er öndunarfærasýking sem er algengust hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti.

Einkenni kíghósta

Samkvæmt þekkingarvef Heilsuveru eru einkenni kíghósta:

  • Vægt kvef
  • Vaxandi hósti
  • Slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar

Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Síðari einkenni eru:

  • Hnerri
  • Nefrennsli
  • Hiti
  • Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur.

Smitleið og viðbrögð

Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum, til dæmis með hnerra. Meðgöngutími sjúkdómsins er yfirleitt um 2 til 3 vikur.

Ung börn, sérstaklega börn innan eins árs, geta orðið alvarlega veik. Fullbólusettir einstaklingar veikjast sjaldan alvarlega en geta fengið langvinnan og hvimleiðan hósta, enda er kíghósti einnig nefndur „hundrað daga hósti“. 

Ef grunur leikur á kíghóstasmiti er gott að lesa sér til um einkennin og úrræði á þekkingarvef Heilsuveru. Sé þörf á ráðgjöf eða frekari upplýsingum getur fólk af landinu öllu heyrt í Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 1700 eða á netspjalli Heilsuveru. 

Kíghósti er öndunarfærasýking sem er algengust hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti. 

Einstaklingar með kíghósta þurfa að draga eins og kostur er úr umgengni við ungbörn á meðan veikindin ganga yfir.

Sýklalyf gagnast sjaldan til að draga úr veikindum vegna kíghósta en er beitt í einstaka tilfellum, til að mynda ef sýkingin veldur bráðri lungnabólgu. 

Bólusetningar mikilvægar

Bólusetning móður á meðgöngu dregur úr hættu á að börn undir 6 mánaða aldri veikist alvarlega og bólusetning samkvæmt áætlun fyrir ungbörn viðheldur svo vörninni næstu 6 mánuði eftir það. Endurtekin bólusetning er nauðsynleg til að viðhalda markvissu viðnámi gegn kíghósta, jafnvel hjá þeim sem hafa fengið kíghósta. 

Mælt er með bólusetningu á 10 ára fresti eftir almennar barnabólusetningar, þegar tilefni gefst. Starfsfólk heilbrigðisstofnana sem sinnir börnum og aðrir sem umgangast börn undir 1 árs á næstu mánuðum ættu að sækjast eftir bólusetningu ef 10 ár eða fleiri eru liðin frá síðasta skammti. 

Bólusetning á meðgöngu miðast að því að vernda barnið og því er mælt með henni á hverri meðgöngu til að verja hvert barn fyrir sig. Þær bólusetningar verja einnig móðurina við kíghósta eftir meðgöngu.