Opið hús í leghálsskimanir á heilsugæslustöðvum

Mynd af frétt Opið hús í leghálsskimanir á heilsugæslustöðvum
26.02.2024
Öllum konum sem fengið hafa boðsbréf í leghálsskimun verður boðið upp á að mæta í skimun á heilsugæslustöðvum án tímabókana. Um er að ræða tilraunaverkefni sem hefst 1. mars og mun standa út maí.

Opið hús í leghálsskimanir verður á mismunandi dögum og mismunandi tímum dags á heilsugæslustöðvum. Hægt er að kynna sér tímasetningu opinna tíma á hverri stöð á vefnum skimanir.is. Send verða SMS-skilaboð á konur sem fengið hafa boðsbréf en ekki komið í skimun til að ítreka mikilvægi þess að mæta.

Konur sem fengið hafa boð í skimun geta mætt í opinn tíma á þá heilsugæslustöð sem þeim hentar best. Skimunin er framkvæmd af ljósmæðrum eða hjúkrunarfræðingum og tekur aðeins örfáar mínútur. Kostnaður við komuna eru 500 krónur.

Flestar konur vilja koma í skimun

„Það hefur sýnt sig að langflestar konur vilja mæta í skimun en ein helsta ástæðan fyrir því að mæta ekki er það sem mætti kannski kalla frestunaráráttu,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

„Við vitum að það getur verið hindrun að þurfa að bóka tíma fyrir fram. Nú viljum við prófa í tilraunaskyni að bjóða upp á opna tíma þannig að konur sem fá boð í skimun geti komið á hvaða stöð sem hentar þegar boðið er upp á opna tíma og fengið skimun. Að sjálfsögðu geta þær konur sem vilja panta tíma gert það áfram, í gegnum Mínar síður á Heilsuveru eða með símtali við sína heilsugæslustöð.“

Minnkar líkur á krabbameini um 90 prósent

Reglubundin skimun fyrir leghálskrabbameini minnkar líkurnar á því að fá krabbamein um 90 prósent. Það er því afar mikilvægt fyrir konur að koma í skimun þegar boð berast frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.