Hvatt til bólusetninga heimilisfólks útsettra

Mynd af frétt Hvatt til bólusetninga heimilisfólks útsettra
10.02.2024

Sóttvarnalæknir hvetur þau sem voru í nánu samneyti við fólk sem var útsett fyrir mislingasmiti í byrjun mánaðar og ekki eru bólusett og hafa ekki fengið mislinga til að þiggja bólusetningu við mislingum sem fyrst.

Að vera útsettur þýðir að hafa verið á sama stað og hugsanlega í nánd við smitandi einstakling þannig að smit gæti hafa átt sér stað.

Mislingar greindust hér á landi þann 3. febrúar og var nokkur hópur fólks útsettur í tvo daga þar á undan. Reynt var að ná í fólk úr þeim hópi sem ekki var bólusett og bjóða því bólusetningu. 

Til að hindra útbreiðslu mislinga er heimilisfólki þeirra sem telja sig hafa verið útsettir nú boðið upp á að koma til heilsugæslunnar og þiggja bólusetningu. Það á aðeins við ef viðkomandi eru ekki bólusettir og eru fæddir 1970 eða síðar.

Ráðgjöf í netspjalli Heilsuveru og í síma 1700

Heimilisfólk þeirra sem telja sig hafa verið útsetta getur fengið ráðgjöf um hvort bólusetningar er þörf í gegnum netspjall Heilsuveru eða í síma 1700. Þar fást jafnframt upplýsingar um hvar og hvenær er bólusett á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar landsbyggðarinnar geta haft samband við sína heilsugæslu til að fá upplýsingar um bólusetningar.

Nú um helgina verður bólusett milli 14 og 16 laugardag og sunnudag í Þönglabakka 1.

Nánari upplýsingar má finna á vef Landlæknis.