Tímabókanir í brjóstaskimun færast til Brjóstamiðstöðvar

Mynd af frétt Tímabókanir í brjóstaskimun færast til Brjóstamiðstöðvar
05.01.2024
Um áramót voru gerðar breytingar á tímabókunum vegna skimana fyrir brjóstakrabbameini. Hér eftir verða tímabókanir gerðar beint hjá Brjóstamiðstöð Landspítalans, sem sér einnig um framkvæmd skimana. 

Konur á aldrinum 40 til 69 ára fá boð í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti og konur á aldrinum 70 til 74 ára fá boð á þriggja ára fresti. Upplýst er um fyrirkomulag tímabókana í boðum sem send eru þegar tími er kominn á skimun.

Þá voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi leghálsskimana hjá konum á aldrinum 23 til 29 ára. Í stað þess að gera frumuskoðun á sýnunum, eins og gert var fram til þessa, eru sýnin fyrst send í HPV-mælingu og aðeins gerð frumuskoðun ef niðurstaðan úr þeirri mælingu er jákvæð. Þetta er sama fyrirkomulag og hefur verið hjá konum 30 ára og eldri.

Konum á aldrinum 23 til 29 ára er boðið upp á skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti en konum 30 til 64 ára á fimm ára fresti. Send eru boð frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana þegar tími er kominn á skimun. Konur geta í kjölfarið bókað tíma á heilsugæslustöð þar sem ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur framkvæmir skimunina. 

Nánari fræðslu um krabbameinsskimanir má finna á fræðsluvef Heilsuveru.