Þrjú geðheilsuteymi flutt í nýtt húsnæði við Vegmúla

Mynd af frétt Þrjú geðheilsuteymi flutt í nýtt húsnæði við Vegmúla
28.11.2023

Þrjú geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði við Vegmúla í Reykjavík. Geðheilsumiðstöð barna, Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana og Geðheilsuteymi ADHD hafa fengið aðstöðu í húsnæðinu, en öll teymin starfa á landsvísu.

Í húsnæði teymanna við Vegmúla er aðstaða til að taka á móti skjólstæðingum auk skrifstofuaðstöðu fyrir starfsfólk. Teymin eru með sameiginlega móttöku á jarðhæð þar sem skjólstæðingar fá leiðbeiningar um hvert þeir eigi að fara.

Þar sem starfsemi teymanna var áður á mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu eru nú sóknarfæri til aukins samstarfs og samþættingar á milli teyma sem og þverfaglegra vinnubragða. Innan teymanna starfa meðal annars geðlæknar, geðhjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar, fjölskyldufræðingar, talmeinafræðingar ásamt fleiri fagstéttum. Þar starfar einnig stoðteymi sem sinna sinnir skrifstofu og verkefnastjórn. 

  • Geðheilsumiðstöð barna sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga að 18 ára aldri. Innan miðstöðvarinnar starfa fjögur teymi; greiningarteymi fyrir yngri og eldri börn, fjölskylduteymi og ráðgjafar- og meðferðarteymi. 
  • Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana sinnir fólki 18 ára og eldra með þroskahamlanir og/eða hamlandi einhverfu sem þarfnast sértækrar geðheilbrigðisþjónustu vegna geðræns vanda.
  • Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna annast greiningu, endurmat ADHD greininga á barnsaldri og meðferð einstaklinga 18 ára og eldri.