Heilsugæslan Hlíðum flutt í Skógarhlíð 18

Mynd af frétt Heilsugæslan Hlíðum flutt í Skógarhlíð 18
26.06.2023
Heilsugæslan Hlíðum hefur flutt sig um set innan hverfisins og hefur opnað nýja og glæsilega heilsugæslustöð í Skógarhlíð 18.

„Gamla húsnæðið var orðið allt of lítið og þröngt fyrir okkar starfsemi svo það er virkilega ánægjulegt að geta loksins boðið skjólstæðinga okkar velkomna í nýja heilsugæslustöð. Í nýju stöðinni verður aðstaðan öll miklu betri. Fyrstu dagana á meðan flutningar standa yfir er hætta á að það verði einhverjar tafir og byrjunarörðugleikar en við gerum okkar besta eins og alltaf og við biðjum fólk að sýna okkur þolinmæði á meðan við klárum að koma okkur fyrir,“ segir Hildur Svavarsdóttir, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá Heilsugæslunni Hlíðum.

Heilsugæslan Hlíðum var áður til húsa við Drápuhlíð 14 til 16 en starfsfólk flutti allt sitt hafurtask í nýju stöðina við Skógarhlíð 18 síðastliðinn föstudag. 

Búast má við að það taki einhverja daga fyrir starfsemi stöðvarinnar að komast í réttar skorður á nýjum stað, enda að mörgu að hyggja þegar heil heilsugæslustöð er flutt í nýtt húsnæði. Skjólstæðingar eru beðnir að sýna þolinmæði fyrst um sinn á meðan starfsfólk er að koma sér fyrir í nýrri stöð.