Mikill styrkur í samstöðu starfsfólks HH

Mynd af frétt Mikill styrkur í samstöðu starfsfólks HH
26.05.2023
„Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir ykkar mikilvægu og góðu störf og vænti áfram mjög mikils og góðs af okkar verkefnum,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra þegar hann ávarpaði ársfund Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem fór fram í Hörpu í gær.

Willum sagði heilsugæsluna hafa mikilvægu hlutverki að gegna og það hlutverk verði sífellt mikilvægara. Heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður flestra í heilbrigðiskerfinu með fjölmörg og fjölbreytt verkefni. „Það er mjög aukið umfang í heilbrigðisþjónustu, það þekkjum við. Mér finnst þið hafa verið jákvæð og lausnamiðuð. Þið hafið líka verið útsjónarsöm í ykkar nálgun. Við þurfum að sýna mikla útsjónarsemi til að takast á við þá þróun sem við sjáum.“ Þar vísaði Willum meðal annars til áskorana sem fylgja muni öldrun þjóðarinnar.

Í ávarpi sínu hvatti heilbrigðisráðherra til þess að hlúa vel að starfsfólki heilsugæslunnar með góðu starfsumhverfi og aðstöðu. Það taki mikinn tíma að byggja upp þekkingu og reynslu og henni verði að halda innan heilbrigðiskerfisins. 

„Þið standið saman. Það er upplifun mín. Það er ofsalegur styrkur í því,“ sagði Willum. Hann sagði augljóst bæði í gegnum heimsfaraldurinn og eftir að honum lauk hversu mikil samstaða sé hjá starfsfólki HH og hvernig það skilaði sér í nýjum lausnum og góðri þjónustu fyrir almenning. Frumkvæði og nýsköpun sé einkennandi fyrir HH og það sé ekki auðvelt að framkalla slíka menningu.

Starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum, sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri HH, á ársfundinum. Kjarninn í starfseminni sé þó eftir sem áður fimmtán öflugar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem sinni mikilvægri þjónustu við almenning. Undanfarin ár hefur ýmiskonar þjónusta bæst við hjá HH, sér í lagi tengt geðheilbrigðismálum. Þar hafi HH fengið mikið sjálfdæmi í að þróa verkefni og það hafi skilað góðri þjónustu við almenning.

Gervigreindin komin í vinnu hjá HH

Fulltrúar úr framkvæmdastjórn HH fóru á fundinum yfir tvö af þeim fjölmörgu spennandi sprotaverkefnum sem eru í þróun hjá stofnuninni; Upplýsingamiðstöð HH og nýja Heilsubrú.

„Þetta eru tvö verkefni sem við erum afskaplega stolt af og eru lýsandi fyrir það sem hefur verið í gangi. Þetta eru ný verkefni sem byrjuðu sem litlir sprotar sem hafa vaxið mjög hratt. Þau eiga það sammerkt að bæta þjónustu við skjólstæðinga okkar og létta á því álagi sem er á starfsstöðvunum okkar,“ sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá HH, á ársfundinum.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH, fór yfir framtíðarsýnina fyrir Upplýsingamiðstöð HH. Hún sagði stefnt að því að miðstöðin verði fyrsti viðkomustaðurinn fyrir bráð erindi frá almenningi. Með símtali í síma 1700 eða í gegnum netspjallið á Heilsuveru sé hægt að fá upplýsingar og leiðbeiningar og þar beini sérfrótt starfsfólk almenningi á réttan stað á réttum tíma.

Með því að efla þjónustu Upplýsingamiðstöðvarinnar má létta álagi af starfsfólki á heilsugæslustöðvunum og tryggja að þeirra tími nýtist sem best. „Framtíðarsýnin er að hjá Upplýsingamiðstöðinni verði starfrækt mjög öflug fjarheilbrigðisþjónusta,“ sagði Ragnheiður Ósk. Verið sé að bæta við starfsfólki með fjölbreytta menntun til viðbótar við hjúkrunarfræðinga, heilbrigðisgagnafræðinga og sérþjálfað starfsfólk. Þar nefndi hún sérstaklega ljósmæður, geðhjúkrunarfræðinga og lækna.

Gervigreindin þegar tekið til starfa hjá heilsugæslunni, sagði Ragnheiður Ósk. Hún sé notuð í netspjallinu til að safna saman upplýsingum til að auðvelda starfsfólki Upplýsingamiðstöðvarinnar að setja sig inn í erindi sem berast á netspjallinu.

Flugdrekinn fái að fljúga

Annað spennandi verkefni sem hefur verið í þróun hjá HH og verður þróað áfram á þessu ári er Heilsubrú. Þar verða í boði ýmis úrræði til að taka á flóknari vanda sem hefur verið á heilsugæslustöðvunum, sagði Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu hjá HH. Í Heilsubrúnni verði boðið upp á námskeið, hóptíma og ýmiskonar ráðgjöf.

Í Heilsubrúnni er þegar komið inn ýmislegt tengt kvenheilsu, mæðravernd, næringarráðgjöf, geðheilbrigðismálum og offitu. Fleiri úrræðum verður bætt inn fljótlega, sagði Guðlaug.

„Hugmyndafræði Heilsubrúar er mjög skýr,“ sagði Sigríður Dóra. Markmiðið sé að vera með miðlæga einingu sem styðji við starfsemi annarra eininga HH. Áherslan verði á fjölbreytt úrræði, þverfaglega aðkomu ýmissa stétta heilbrigðisstarfsfólks og gott aðgengi þar sem almenningur geti sem mest bókað sig sjálft í úrræðin.

„Við horfum spennt til framtíðar með Heilsubrúna og með því starfsfólki sem þar er. Þetta eru eldhugar og ég upplifi mig eins og ég sé að halda í flugdreka. Við viljum leyfa honum að fljúga,“ sagði Ragnheiður Ósk. Framtíðarsýnin fyrir Heilsubrúna sé að þar verði boðið upp á miðlæg námskeið um fjölbreytt málefni. Þá verði áhersla á rafrænar lausnir til að efla heilsulæsi og að fólk geti í auknum mæli tekið ábyrgð á eigin heilsu.

„Við getum gert meira með þessu fyrirkomulagi,“ sagði Ragnheiður Ósk. Markmiðið sé að auka skilvirkni þjónustunnar og afköst en ekki verði gefinn afsláttur af gæðum. Það sé augljóst að verkefni heilbrigðiskerfisins og heilsugæslunnar séu sífellt að aukast og Heilsubrúin sé ein leið til að bregðast við því.

„Áskoranirnar eru brjálæðislegar, en öllum áskorunum fylgja skemmtileg tækifæri,“ sagði Ragnheiður Ósk.

Ársskýrsla HH 2022 komin út

Ársskýrsla HH fyrir árið 2022 var gefin út samhliða ársfundinum. Áhugasamir geta fundið skýrsluna, ásamt eldri skýrslum, á vef stofnunarinnar.