Heilsugæsla Grafarvogs flutt tímabundið í Árbæ

Mynd af frétt Heilsugæsla Grafarvogs flutt tímabundið í Árbæ
16.02.2023

Vegna yfirstandandi viðgerða á húsnæði Heilsugæslu Grafarvogs í Spönginni verður öll starfsemi heilsugæslustöðvarinnar flutt í Hraunbæ 115 í Árbænum þar til endurbótum á húsnæðinu er lokið.

Sú starfsemi sem nú er í Spönginni verður flutt yfir í Hraunbæinn fimmtudaginn 23. febrúar. Lokað verður fyrir móttöku á dagvakt þann daginn en síminn verður opinn og hjúkrunarfræðingar veita ráðgjöf í síma. Önnur starfsemi verður að mestu óbreytt. 

Áformað er að gera upp húsnæði heilsugæslunnar í Spönginni og standa vonir til þess að það verði tilbúið snemma á næsta ári. Vegna rasks sem fylgja mun framkvæmdunum þarf að flytja alla starfsemi heilsugæslustöðvarinnar. Tímabundin staðsetning stöðvarinnar verður í Hraunbæ 115, 110 Árbæ. Það er sama hús og Heilsugæsla Árbæjar er staðsett en Heilsugæsla Grafarvogs verður á 1. hæð hússins.

  • Ungbarnavernd, mæðravernd, hreyfistjórnun sjúkraþjálfara, sálfræðimeðferð barna, heilsuvernd aldraðra og sykursýkismóttaka verða staðsett í austurenda á 1. hæð. Gengið er inn hægra megin út í enda byggingarinnar. 
  • Dagvakt, læknamóttaka og hjúkrunarmóttaka verður staðsett í vesturenda á 1. hæð. Gengið inn um sama inngang og HH Árbæ og Lyfju.

Starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins biður skjólstæðinga afsökunar á óþægindum sem þessu fylgja. Við munum keppast við að veita fyrsta flokks þjónustu í Árbænum og hlökkum til að taka á móti ykkur í endurbættu húsnæði í Spönginni um leið og framkvæmdum er lokið.

Að komast á staðinn
 
Til að komast frá Spönginni í Hraunbæ 115 með Strætó er hægt að taka leið 6 og fara út á stoppistöðinni Ártún A (sem er á brúnni). Gengið niður göngustíginn í stoppistöðina Ártún D (sem er undir brúnni) og leið 16 tekin. Farið er út á stoppistöðinni Bæjarbraut en þaðan er 2 mínútna gangur að Hraunbæ 115 (Heilsugæslan í Árbæ er í sama húsi).