Tvö verkefni tengd HH fengu styrki úr Fléttunni

Mynd af frétt Tvö verkefni tengd HH fengu styrki úr Fléttunni
06.01.2023
Tvö nýsköpunarverkefni sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekur þátt í hafa fengið alls 13 milljónir króna í styrki úr Fléttunni.

Fléttustyrkir eru veittir nýsköpunarfyrirtækjum sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins, eins og fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins.

Bæta þjónustu geðsviðs

Eitt af þeim verkefnum sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tengist í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Skræðu fékk 9 milljóna króna styrk. Verkefni miðar að því að innleiða sértæka hugbúnaðarlausn fyrir stafræn mælitæki og matslista, til greiningar og meðferðarmats á geð-, þroska- og hegðunarröskunum.

Með innleiðingu nýrra stafrænna lausna er markmiðið að auka skilvirkni og bæta þjónustu geðheilsusviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við skjólstæðinga og stytta biðlista eftir þjónustu. 

Verkefnið miðar að því að meta hvernig svokölluð QUERA-lausn fellur að fyrirkomulagi og verkferlum við fyrirlögn greiningaprófa og matskvarða hjá skjólstæðingum geðheilbrigðisþjónustu hjá heilsugæslunni og Heilaörvunarmiðstöð heilsugæslunnar. Einnig verður kannað hvort hin nýja lausn leiði til vinnusparnaðar og nýs verkfyrirkomulags og þar með styttingu biðlista og aukins gegnumflæðis skjólstæðinga. 

Mögulegur ávinningur víðar

Verkefnið hefur víðari skírskotun fyrr Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem vonast er til þess að niðurstöður þess gefi vísbendingar um mögulegan ávinning fyrir önnur svið og aðrar heilbrigðisstofnanir sem glíma við sambærileg verkefni. 

Skræða er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði heilbrigðislausna sem stofnað var árið 2007 í þeim tilgangi að bjóða frekari valmöguleika fyrir rafræn sjúkraskrárkerfi á Íslandi. Síðan þá hafa sjúkraskrár hundruð þúsunda Íslendinga verið færðar í lausnir Skræðu af ýmsum heilbrigðisstofnunum og einkareknum læknastofum.

Öruggari meðferð ávanabindandi lyfja

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekur einnig þátt í nýsköpunarverkefni með Nordverse Medical Solutions ásamt Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem miðar að innleiðingu öruggari meðferða ávanabindandi lyfja. Verkefnið, sem var styrkt um 4 milljónir króna, hefur það að markmiði að bættu öryggi meðferða ópíóíða og benzódíazepíns. 

Verkefninu er ætlað að koma í veg fyrir þróun ávanabindingu, draga úr langtímanotkun, auka skilvirkni og þverfaglegt samstarf heilbrigðisstarfsfólks auk þess að auðvelda aðgengi skjólstæðinga að heilbrigðisþjónustu. Samhliða innleiðingu munu þátttakendur frá Heilsugæslunni Efra-Breiðholti framkvæma rannsókn á áhrifum á notkun kerfisins sem er liður í rannsóknar samstarfi við erlenda þátttakendur verkefnisins.