Bólusetning eldri barna og fullorðinna við hlaupabólu

Mynd af frétt Bólusetning eldri barna og fullorðinna við hlaupabólu
08.08.2022
Hægt er að fá bólusetningu gegn hlaupabólu fyrir fullorðna og börn fædd fyrir 1. janúar 2019 sem ekki hafa fengið hlaupabólu á næstu heilsugæslustöð. Bólusetningin er á kostnað einstaklinganna sjálfra.

Þeim sem hafa hug á að fá bólusetningu er ráðlagt að hafa samband við sína heilsugæslustöð til að kanna hvort efnið sé til og bóka tíma í bólusetningu. Ef bóluefnið er ekki til þarf læknir að senda lyfseðil í apótek. Þá þarf að leysa út bóluefnið og bóka tíma hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslunni í bólusetningu. 

Greitt er fyrir bóluefnið, sem kallast Varivax, samkvæmt gjaldskrá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Almenn bólusetning við hlaupabólu hófst árið 2020 fyrir börn fædd 1. janúar 2019 og yngri en sú bólusetning fer fram í ungbarnaeftirliti og því án endurgjalds.

Hlaupabóla er algengur en yfirleitt vægur veirusjúkdómur. Í einstaka tilfellum getur hlaupabóla orðið að alvarlegum sjúkdómi, ef veiran nær að dreifa sér til ýmissa líffæra og valda skaða. Nánar er fjallað um hlaupabólu á vefnum Heilsuvera.