Nýr samningur um þekkingarvef Heilsuveru

Mynd af frétt Nýr samningur um þekkingarvef Heilsuveru
25.05.2022

Í dag var undirritaður samstarfssamningur milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Embættis landlæknis og Landspítala um þekkingarvef Heilsuveru. Það voru landlæknir og forstjórar heilsugæslunnar og Landspítalans sem skrifuðu undir.

Eldri samningur um verkefnið var milli heilsugæslunnar og landlæknis. Það er fagnaðarefni að fá Landspítalinn formlega með í þetta samstarf en það hefur verið í  undirbúningi allt frá árinu 2018. Nú stendur til að allt fræðsluefni spítalans sem er ætlað almenningi fari inn á Heilsuveru.
Með þessu móti verður vefurinn enn öflugri fræðsluvefur fyrir almenning þar sem heilsuefling og ráðgjöf um ýmis heilsutengd vandamál verður í forgrunni. Heilsuvera þjónar öllu landinu og það er mikilvægt að íslensk heilbrigðisþjónusta geti veitt áreiðanlegar og samræmdar upplýsingar sem allir geta notað.

„Heilsuvera hefur óumdeilanlega sannað mikilvægi sitt í heimsfaraldrinum og við viljum halda áfram að nota vefinn til að koma fræðslu á framfæri við almenning, en ekki síður til að halda áfram að eiga samskipti við þá sem þurfa á þjónustu að halda,“ sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Óþrjótandi möguleikar

Um 15 milljón flettingar voru skráðar á vefnum Heilsuveru á árinu 2021, sem jafngildir því að 30 flettingar hafi verið gerðar á hverri mínútu að meðaltali. Þá var tekið á móti um 150 þúsund erindum í gegnum vefinn á síðasta ári.

„Það eru óþrjótandi möguleikar til að þróa Heilsuveru áfram,“ sagði Alma Möller landlæknir við undirskriftina í gær. Hún sagði fjölda uppflettinga á vefnum í veldisvexti og stór hluti þjóðarinnar noti vefinn.

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, tók í sama streng. „Það er mikil ánægja með Heilsuveru,“ sagði hann og mikilvægt sé að halda áfram að byggja ofan á það sem þegar sé hægt að gera á vefnum. Eitt af því sem þurfi að gera í framhaldinu sé að gera snjallforrit í síma sem styðji við vefinn.

Í grunninn vefur skólahjúkrunarfræðinga

Sögu Heilsuveru má rekja aftur til ársins 2007 og vefsins 6H heilsunnar (6h.is). Honum var ætlað að auðvelda skólahjúkrunarfræðingum að bjóða skólabörnum upp á samræmt fræðsluefni sem þau gætu nálgast sjálf. Fljótlega var líka farið að setja efni inn fyrir foreldra og fræðsluefni úr mæðravernd og ungbarnavernd bættist við. Þarna var líka hægt að senda inn fyrirspurnir í tölvupósti sem var talvert notað af ungmennum. Nokkrum árum síðar setti Embætti landlæknis upp vefinn heilsuhegdun.is þar sem var efni um áhrifaþætti heilbrigðis ætlað almenningi.

Árið 2015 var ákveðið að sameina þessa tvo vefi í nýjan vef með styrk frá lýðheilsusjóði. Að auki var landlæknir að þróa Veru sem fór í loftið  2014 og þar varð til slóðin heilsuvera.is. Til að fá samlegðaráhrifin var niðurstaðan að nýi sameinaði vefurinn notaði nafnið Heilsuvera og Vera breyttist í mínar síður eins við í þekkjum í dag. Heilsuvera fór loftið í nóvember 2017. 

Hingað til hefur Heilsuvera haft sjö manna stýrihóp, þar sem eru þrír frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þrír frá Embætti landlæknis auk vefstjóra og svo er þriggja manna ritstjórn. Heilsugæslan ræður vefstjóra og sér um þekkingarvefinn en Embætti landlæknis sér um mínar síður.

Í dag er Heilsuvera fjórskiptur vefur:

  • Þekkingarvefur, þar sem mikinn fróðleik um heilsu er að finna
  • Mínar síður, þar sem fólk fer inn á rafrænum skilríkjum  
  • Þjónustuvefsjá, sem er á þremur tungumálum og sýnir þjónustu allra heilsugæslustöðva á landinu.
  • Netspjall, sem er opið alla daga milli klukkan 8 og 22 og veitir ráðgjöf um heilbrigðisþjónustu.

Grunnur að leiðarvísi

Í þekkingarhluta Heilsuveru er fræðsluefni um heilsu og heilsutengda þætti, sjúkdóma, forvarnir og fyrirbyggjandi leiðir til heilbrigðara og betra lífs.

Þar er meðal annars flokkurinn „Sjúkdómar, frávik, einkenni“ þar sem uppbygging efnisgreina er samræmd eins og hægt er. Í umfjöllun um ákveðin einkenni eru oft kaflarnir: „Hvað get ég gert?“ og „Hvenær skal leita aðstoðar?“ Þarna er bæði bent á leiðir til sjálfshjálpar og leiðbeint um hvenær leita skal til heilsugæslu og hvenær til bráðamóttöku. Neðst á hverri síðu er svo alltaf bent á netspjallið og símaráðgjöf hjúkrunarfræðinga.

Heilsuvera er því grunnur að leiðarvísi um heilbrigðiskerfið sem hjálpar almenningi við að leita sér þekkingar og stuðlar að markvissari notkun á heilbrigðisþjónustu.