Atvinnurekendur sleppi því að kalla eftir vottorðum

Mynd af frétt Atvinnurekendur sleppi því að kalla eftir vottorðum
04.04.2022

Enn er talsvert um Covid-19 smit í samfélaginu og því er áfram eitthvað um fjarvistir frá vinnu vegna faraldursins. Minni áhersla er á PCR-próf en áður og hraðprófum hefur að mestu verið hætt. Því er algengt að fólk láti jákvæð heimapróf duga sem staðfestingu á veikindum og talsvert um að fólk sem hefur náð bata leiti á heilsugæslustöðvar  til að staðfesta að veikindum sé lokið með beiðni um vottorð fyrir vinnuveitendur.

Á tímum þegar mikið álag er á heilsugæsluna vegna inflúensu og annarra veikinda er erfitt að réttlæta komur fullfrísks fólks á heilsugæslustöðvar í þessum tilgangi. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hvetur atvinnurekendur til að standa með starfsfólki heilsugæslunnar og sleppa því að kalla eftir læknisvottorðum og draga þannig úr álagi á heilsugæsluna.

Þeir einstaklingar sem fara í einkennasýnatöku, sem hægt er að bóka í gegnum vefinn Heilsuvera, fá áfram sjálfvirk vottorð sem gilda í fimm daga. Ef veikindi starfsfólks standa lengur en í þá fimm daga eru vinnuveitendur beðnir um að láta þessi vottorð duga til staðfestingar á veikindum þannig að fólk þurfi ekki að leita á heilsugæslustöðvar eftir öðru vottorði með tilheyrandi álagi fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur skrifað vinnuveitendum bréf þar sem óskað er eftir því að þeir hætti að óska eftir vottorðum. Bréfinu hefur verið komið áleiðis í gegnum samtök atvinnurekenda.