Heilbrigðisráðherra Grænlands heimsótti heilsugæsluna

Mynd af frétt Heilbrigðisráðherra Grænlands heimsótti heilsugæsluna
16.03.2022

Kirsten L. Fencker, heilbrigðisráðherra Grænlands, heimsótti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í gær ásamt sendinefnd frá Grænlandi til að kynna sér skimanir og bólusetningar vegna Covid-19.

Óskar Reykdalsson, forstjóri HH, og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH, kynntu starfsemi Heilsugæslunnar fyrir gestunum og sýndu þeim skimunaraðstöðuna við Suðurlandsbraut, þar sem hraðpróf og PCR-próf hafa verið tekin.

Óskar og Ragnheiður kynntu í stuttu máli hvernig skimanir og bólusetningar fóru af stað og það ferli sem heilsugæslan bjó til um þessi gríðarlega viðamiklu verkefni. Þau fóru meðal annars yfir hvernig fyrst voru settar hömlur á það hverjir yrðu prófaðir áður en ákveðið hafi verið að opna alveg fyrir próf og treysta almenningi til að meta þörfina og skrá inn upplýsingar.

Utanumhald um bólusetningar hér á landi var einnig rætt. „Í upphafi vorum við spurð hvort við gætum bólusett alla íslensku þjóðina á einni helgi. Við sögðum að við gætum það auðvitað,“ sagði Óskar. Þegar í ljós hafi komið að ekki fengist nægilega mikið bóluefni hafi verkefnið breyst í það að bólusetja þjóðina jafnt og þétt eftir því sem bóluefni bærist. Það hafi auðvitað verið allt annars konar verkefni en að bólusetja alla á einni eða tveimur helgum, þó auðvitað hafi skipulagningin verið flókin og mikil vinna í kringum bólusetningarnar.

Á Grænlandi er hætt að skima eftir Covid-19 nema hjá sjúklingum á spítölum og tilvik afar fá. Þrátt fyrir það vildi sendinefndin frá Grænlandi kynna sér vel þau kerfi sem HH hefur byggt upp í kringum skimun og bólusetningar, enda betra að vera vel undirbúinn ef viðlíka verkefni koma upp í framtíðinni. HH mun að sjálfsögðu aðstoða grænlensk heilbrigðisyfirvöld verði þess óskað.