Þann 1. febrúar hóf Landspítali formlega greiningar á leghálssýnum kvenna búsettum á Íslandi. Þetta er samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra frá 5. júlí 2021.
Frá því að skimun fyrir leghálskrabbameini færðist frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í ársbyrjun 2021 hafa leghálssýni verið greind á rannsóknastofu í Danmörku.
Nú þegar Landsspítali er byrjaður að greina leghálssýni mun sýnum sem send verða til Danmerkur smám saman fækka. Stefnt er að því að Landspítali taki alfarið við greiningunum um næstu áramót.
Unnið hefur verið að því undanfarna mánuði hjá Landspítala að koma upp tækjakosti og þjálfa starfsfólk til að geta tekið yfir þetta verkefni. Mikil hugbúnaðarvinna hefur einnig farið fram og hefur verið gott samstarf milli spítalans, Embættis landlæknis og Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana ásamt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í þessu verkefni.
"Landspítali er nú tilbúinn til að taka við sýnum í HPV-veirugreiningu og til frumuskoðunar og mun starfsemin vaxa jafnt og þétt eftir því sem líður á árið" segir Maríanna Garðarsdóttir forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Landspítala.
Þetta breytir engu um það sem snýr að konum sem koma í skimun, hvort sem það er á heilsugæslum eða hjá kvensjúkdómalæknum en utanumhald sýna er öðruvísi.
"Vonast er til að þetta stytti biðtíma um nokkra daga, úr 4-6 vikum eins og það er nú og niður í 2-4 vikur" segir Ágúst Ingi Ágústsson yfirlæknir á Samhæfingarstöð krabbameinsskimana.
Nánari upplýsingar um leghálsskimanir eru á síðu Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana