Skipulagsbreytingar hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana

Mynd af frétt Skipulagsbreytingar hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana
13.08.2021

Fyrir réttu ári var Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins falið að taka yfir skimanir fyrir leghálskrabbameini íslenskra kvenna frá áramótum.  

HH hefur allan tímann unnið að margvíslegum aðgerðum til að bæta ferli leghálsskimunar í samráði við stofnanir og hagsmunaaðila og jafnframt fara eftir skimunarleiðbeiningum EL. Á þessum tíma hefur verið unnið að því að skipuleggja sýnatöku, skráningu, rannsóknir og úrlestur rannsóknarniðurstaða. Um leið varð að gera viðamiklar breytingar á upplýsingakerfum fyrir skimunina sem komin voru til ára sinna.

Kristján Oddsson, svæðisstjóri Heilsugæslunnar Hamraborgar, tók að sér fyrir HH að skipuleggja og stýra Samhæfingarstöð krabbameinsskimana frá miðju ári 2020. Kristján hefur nú sagt sig frá verkefninu og mun einbeita sér að starfinu við Heilsugæsluna Hamraborg. HH þakkar Kristjáni mikið og gott starf við þetta verkefni.

Nú hefur starfsemi Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hefur verið flutt í nýtt og stærra húsnæði að Þönglabakka 1. Ágúst Ingi Ágústsson, kvensjúkdómalæknir, hefur verið ráðinn yfirlæknir og nýr forstöðumaður Samhæfingarstöðvarinnar næsta hálfa árið en hann hefur langa reynslu af skimunum fyrir krabbameini hjá konum.

Viðræður við Landspítala

Brýnasta verkefni næstu mánaða er að ljúka gerð nýs tölvukerfis sem heldur utan um skimanirnar, samkvæmt þeim leiðbeiningum sem í gildi eru, og kemur niðurstöðum með sjálfvirkum hætti í www.heilsuvera.is. Embætti landlæknis leiðir þá vinnu sem lýkur vonandi á haustmánuðum og mun flýta verulega fyrir skráningu og meðferð sýna.
HH, LSH og Heilbrigðisráðuneytið undirbúa núna hvernig best verður að því staðið að öll sýni verði rannsökuð á LSH og hvenær það getur orðið, að uppfylltum skilyrðum EL.