Ekki er hægt að velja bóluefni

Mynd af frétt Ekki er hægt að velja bóluefni
08.04.2021

Sumir óska eftir að fá annað bóluefni en Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að hópurinn sem viðkomandi tilheyrir fái.

Heilsugæslan hefur enga heimild til að færa fólk milli bólusetningahópa nema í algerum undantekningartilvikum.

Öllum frjálst að bíða með bólusetningu og sjá hver framvindan verður en ekki er öruggt að viðkomandi fái annað bóluefni þótt hann bíði. 

Ef þú færð boð í COVID-19 bólusetningu með bóluefni sem þú vilt ekki þiggja, mætir þú ekki. Það er ekki hægt að skrá sig á neina lista og ekki hægt að segja neitt um tímasetningar. 

Um leið og annað verður ákveðið verður það kynnt vel.

Undantekningartilvik

Einu tilvikin sem hægt er að breyta um bóluefni eru:

  • Bráðaofnæmi eftir fyrri bólusetningu. 
  • Líftæknilyf þar sem meðferð tefst ef beðið er eftir seinni Astra Zeneca bólusetningu. 

Ef þú hefur spurningar varðandi bólusetningar og heilsufar bendum við á netspjallið á heilsuvera.is.    

Afþakka bólusetningar 

Ef þú vilt hafna bólusetningu alfarið, óháð bóluefni, sendir þú nafn þitt og kennitölu á bolusetning@heilsugaeslan.is. Þá færð þú ekki fleiri boð í bólusetningu.

Í þessu netfangi er engum spurningum svarað. 

Algengar spurningar

Algeng spurning er að fólk sem hefur fengið blóðtappa hefur áhyggjur af því að vera bólusett með AstraZeneca bóluefninu. Þessir blóðtappar sem hafa komið í kjölfar AstraZeneca bóluefnisins eru ekki af sama toga og venjulegir blóðtappar.

UppfærtUm áframhaldandi notkun Astra Zeneca COVID-19 bóluefnis (Vaxzevria) á Íslandi

Við bendum líka á ítarlegar upplýsingar varðandi bólusetningar, bóluefnin og aukaverkanir á covid.is/bolusetningar  

Hafi fólk bráðaofnæmi við stungulyfjum, eða af óþekktum toga, er ekki ráðlegt að bólusetja það. 

 

Fréttin var uppfærð 14. apríl með hlekk í vef Embættis landlæknis.