Hreyfiseðill er lausn sem gæti hentað þér

Mynd af frétt Hreyfiseðill er lausn sem gæti hentað þér
11.03.2021

Ein helsta heilsufarsáskorun 21. aldarinnar er að minnka algengi lífsstílssjúkdóma, en rekja má ríflega 80% dauðsfalla til þessara sjúkdóma. Hreyfingarleysi er ein orsök aukningar á lífsstílssjúkdómum en almennt er talað um að þörf sé á að hreyfa sig af meðalákefð í 150 mínútur á viku til að minnka líkur á að þróa með sér lífsstílssjúkdóma.

Hreyfing er meðferð

Hreyfing er ekki einungis mikilvæg í forvarnarskyni heldur einnig sem meðferð við hinum ýmsu sjúkdómum. Umfangsmikla vísindalega þekkingu á jákvæðum áhrifum hreyfingar á hina ýmsu sjúkdóma má finna í fjölda rannsókna. Skipulögð hreyfing er því öflugt meðferðarúrræði og mikilvægur hluti af meðferð við mörgum algengum sjúkdómum svo sem langvarandi verkjum, kvíða, depurð, sykursýki, offitu, kransæðasjúkdómum, hjartabilunareinkennum, afleiðingum lungnaþembu, háum blóðþrýstingi, hækkuðum blóðfitum svo eitthvað sé nefnt.

Hér á landi hefur verið innleitt og þróað úrræði innan heilbrigðiskerfisins þar sem skrifað er upp á hreyfingu sem meðferð, svonefndur hreyfiseðill, og byggist það á sænska hreyfiseðilsmódelinu.

Ráðleggingar og hvatning

 Telji læknar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn að hreyfing ætti að vera hluti af meðferð við þínum sjúkdómi er þér vísað til hreyfistjóra sem er sjúkraþjálfari með aðsetur á heilsugæslunni þinni. Þú getur einnig haft frumkvæði að því að óska eftir tilvísun á hreyfiseðil. Ávísun á hreyfiseðil felur í sér einnar klukkustundar viðtalstíma hjá sjúkraþjálfara þar sem farið er í gegnum heilsufarssögu, sjúkdómseinkenni og hreyfivenjur. Sett eru upp markmið og hreyfiáætlun út frá þinni getu að teknu tilliti til ákveðinna heilsufarsmælinga, sjúkdóma og heilsuvanda. Út frá þessu færðu ráðleggingar um tegund hreyfingar, magn, ákefð og tímalengd.

Þú skráir hreyfingu þína rafrænt eða símleiðis og færð hvatningu, stuðning og aðhald með skilaboðum í gegnum Heilsuveru eða símtölum.

Hópar góður kostur

Á þriggja mánaða fresti fær læknir / heilbrigðisstarfsmaður greinargerð frá hreyfistjóra þar sem mat er lagt á framvindu og árangur meðferðarinnar. Meðferð getur varað í eitt ár, allt eftir óskum þínum og árangri og er þér að kostnaðarlausu að undanskildu viðtalinu þar sem greitt er komugjald.

Þjálfunin sjálf er margs konar og getur farið fram víða. Nokkuð er um að fólk stundi hreyfingu á eigin vegum en einnig geta ýmsir skipulagðir hópar í nærumhverfi fólks verið góður kostur.

Ef þú ert að glíma við sjúkdómsástand þar sem regluleg hreyfing getur haft umtalsverð áhrif þá skaltu ræða um möguleika hreyfiseðils fyrir þig við heilbrigðisstarfsmann.


Auður Ólafsdóttir verkefnisstjóri hreyfiseðils hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.