Hlutverk heilsugæslunnar í krabbameinsskimun

Mynd af frétt Hlutverk heilsugæslunnar í krabbameinsskimun
24.02.2021

Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er forvörn sem býðst einkennalausum konum. Konum með einkenni er ráðlagt að leita til læknis.

Þann 1. janúar 2021 tók gildi breytt skipulag á skimun fyrir krabbameinum samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra að fengnum tillögum landlæknis og áliti Skimunarráðs. Skipulagið er í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar, vísindalega þekkingu og gagnreynda læknisfræði. Heilsugæslunni var falin framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi og ábyrgð og rekstur Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana. 

Skimun fyrir krabbameini í leghálsi 

Markmið skimunar fyrir krabbameini í leghálsi er að lækka tíðni sjúkdómsins. Leghálskrabbamein orsakast oftast af HPV veiru. Bólusetning gegn veirunni, sem hófst 2011, mun lækka tíðni krabbameinsins á næstu árum. Mikilvægt er að skima einkennalausar konur frá 23ja ára aldri á skipulagðan hátt. Lykilatriðið til að ná árangri er að auka þátttöku í skimuninni úr þeim nærri 70% sem eru núna í yfir 85%. Til að gera það er verið að fjölga stöðum þar sem hægt er að taka sýni. 

Bætt aðgengi í nærumhverfi 

Konum býðst nú skimun fyrir leghálskrabbameini á öllum heilsugæslustöðvum landsins og aðeins er greitt 500 kr. komugjald fyrir þjónustuna. Leghálssýnin eru tekin af ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum sem hafa hlotið til þess sérstaka þjálfun. Framkvæmdin hefur gengið mjög vel. Ekkert breytist varðandi aðkomu kvensjúkdómalækna að sýnatöku hjá þeim konum sem það kjósa. 

Tímabókanir 

Hægt er að bóka tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á Heilsuvera.is eða með því að hringja í viðkomandi heilsugæslustöð. Bókað er í tíma fyrir skimun fyrir krabbameini í brjóstum hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana í síma 513 6700 virka daga frá kl. 8:30 til 12:00 og síðar á árinu verður hægt að bóka á Heilsuvera.is.

Styttri svartími

Samkvæmt samningi við Hvidovre sjúkrahúsið verður öllum leghálssýnum svarað innan þriggja vikna. Reikna má með að niðurstöður verði aðgengilegar konum á island.is innan mánaðar frá því sýnið var móttekið af rannsóknarstofunni og síðar á árinu inn á Heilsuvera.is. Þar geta konur einnig séð hvenær áætlað er að næsta skimun verði.

Rannsóknaraðferðir við skimun

Notast verður við tvær rannsóknaraðferðir við skimun fyrir krabbameini í leghálsi. Þær eru hefðbundin frumurannsókn og HPV greining. Báðar rannsóknaraðferðir eru vel reyndar og góðar aðferðir til að skima fyrir leghálskrabbameini. Báðar aðferðirnar byggjast á því að frumusýni er tekið frá leghálsi. Mismunurinn felst þannig ekki í því hvernig sýnið er tekið heldur hvernig það er rannsakað.
Hefðbundin frumurannsókn er huglæg rannsóknaraðferð og byggist á því að sérhæfður frumurannsakandi rannsakar frumusýni í smásjá. Mælt er með þessari aðferð hjá konum á aldrinum 23-29 ára. 
HPV greining er hlutlæg rannsóknaraðferð sem greinir hvort HPV veirur eru í leghálssýninu. Aukið næmi rannsóknarinnar er um 95% sem leiðir af sér að mælt er með leghálsskimun á fimm ára fresti hjá konum á aldrinum 30-64 ára. 

Niðurstöður fjölþjóðlegra rannsókna hafa sýnt að hefðbundin frumurannsókn á þriggja ára fresti og HPV greining á fimm ára fresti eru jafn árangursríkar aðferðir til að skima fyrir krabbameini í leghálsi.

Ný rannsóknaraðferð

Samkvæmt skimunarleiðbeiningum Embættis landlæknis var tekin upp HPV frumuskimun hér á landi í aldurshópnum 30-64 ára um sl. áramót en rannsóknin minnkar áhættu á leghálskrabbameini miðað við hefðbundna frumurannsókn. 

Ástæða þess að ekki er enn þá mælt með HPV frumuskimun hjá konum yngri en 30 ára er algengi HPV sýkinga í þessum aldurshópi. Það myndi valda aukinni tíðni falskt jákvæðra niðurstaðna og auka óþarfa eftirlit því ekki allar HPV sýkingar valda frumubreytingum. Um 90% allra HPV sýkinga hverfa á 2-3 árum.

Stefnt er að því sjálftökupróf verði hluti af skimun hér á landi síðar á árinu. Þau eru mikilvæg viðbót við skimun, sérstaklega hjá hópi kvenna sem mætir sjaldan en rannsóknir hafa sýnt að byrði sjúkdómsins er meiri hjá þessum hópi kvenna. 

Öryggi og gæði rannsókna

Við innleiðingu HPV frumuskimunar 1. janúar 2021 hér á landi er reiknað með að hefðbundnum frumurannsóknum fækki úr um 27.000 í um 7.000 á ári. 

Til að leitast við að tryggja sem best öryggi og gæði frumurannsókna, og uppfylla alþjóðleg gæðaviðmið og ákvæði skimunarleiðbeininga Embættis landlæknis var gerður samningur við rannsóknarstofu Hvidovre sem er eitt af opinberum sjúkrahúsum Kaupmannahafnar. Fyrir utan Kaupmannahöfn hefur rannsóknarstofan sinnt rannsóknum á leghálssýnum fyrir Grænland, Færeyjar, Stokkhólm og Skán. Þessi ákvörðun var tekin eftir fundi með forsvarsmönnum viðkomandi rannsóknarstofa, símtölum og skriflegum samskiptum. 

Í Danmörku hafa frumurannsakendur lokið evrópsku frumuskoðunarprófi (Quality Assurance Training and Education – QUATE) eða alþjóðlegu frumuskoðunarprófi (International Academy of Cytology – IAC). 

Rannsóknir á Íslandi

HPV greiningar

Heilsugæslan hefði kosið að rannsóknir á sýnum úr skimun fyrir leghálskrabbameini færu fram hér á landi og kannaði þann möguleika með forsvarsaðilum viðkomandi rannsóknarstofa. Heilsugæslan hefur góða reynslu af öflugri þjónustu rannsóknardeilda LSH til fjölda ára og á viðskipti við þá einingu uppá hundruðir milljóna á ári hverju. Engin vandkvæði hefðu verið hjá Landspítala að framkvæma HPV greiningar en miðað við afkastagetu hefði það tekið innan við fjóra daga á ári að HPV greina öll leghálssýni sem tekin eru árlega hér á landi. 

Heilsugæslan hafði frumkvæði að því að kanna hvort hægt væri að gera HPV greiningar á Landspítala og eiga samstarf við stærri erlendar rannsóknarstofur um að framkvæma hefðbundnar frumurannsóknir en það gekk ekki upp.

Hefðbundnar frumurannsóknir

Ekki er rekin sérhæfð rannsóknarstofa fyrir rannsóknir á sýnum úr skimun fyrir leghálskrabbameini á Landspítala. Stofnkostnaður og rekstur slíkar rannsóknarstofu lá ekki fyrir. 
Í nýlegri fréttatilkynningu Félags íslenskra rannsóknarlækna segir m.a. að gera þyrfti ýmsar ráðstafanir til að Landspítalinn gæti tekið að sér þessar rannsóknir þar sem skorti tækjakost, sérhæft starfsfólk og húsnæði.

Frumurannsakendur eru fáir á Íslandi eins og víðast hvar í heiminum og nýliðun þeirra er vaxandi alþjóðlegt vandamál. Fáir sérhæfðir frumumeinafræðingar (læknar) eru ákveðin ógn við sjálfbærni, öryggi og gæði starfseminnar. Því var það metið tryggast fyrir öryggi skimunarinnar að nýta dönsku rannsóknarstofuna sem t.d. er með marga lækna og sérhæfða frumurannsakendur í vinnu. 

Samhæfingarstöð krabbameinsskimana

Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var falin rekstur og ábyrgð á Samhæfingarstöð krabbameinsskimana (SKS). Í hlutverkinu felst að bera ábyrgð á að skimunarleiðbeiningum Embættis landlæknis sé fylgt á landsvísu. Þetta felur m.a. í sér skipulag krabbameinsskimunar og samhæfingu hennar í samráði við þá aðila sem koma að skipulegri skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum, svo sem Embætti landlæknis, stjórnendum heilbrigðisstofnana, rannsóknarstofa, kvennadeilda og sjálfstætt rekinna heilsugæslustöðva. 

Jafnframt ber SKS ábyrgð á boði í skimun og tryggir að konur sem óska eftir að taka þátt í skimun fái tækifæri til þess. SKS skal einnig tryggja að konur fái upplýsingar um skipulega lýðgrundaða skimun fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum og geti þannig tekið upplýsta ákvörðun um þátttöku í samræmi við leiðbeiningar Embættis landlæknis (https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/skimun-fyrir-krabbameini/). 

SKS ber einnig ábyrgð á að ítreka boð um skimun samkvæmt skimunarleiðbeiningum Embættis landlæknis og að konum berist upplýsingar um niðurstöðu skimunar og upplýsingar um eftirfylgni í samræmi við þær. SKS sér um skráningu og afskráningu varðandi þátttöku í skimun. SKS ber ábyrgð á að fylgja eftir öllum niðurstöðum leghálssýna sem tekin eru á vegum heilsugæslunnar í landinu.

Kostnaður 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins skilaði heilbrigðisráðuneytinu þarfa- og kostnaðargreiningu fyrir framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi fyrir 15. ágúst 2020 og fyrir rannsóknum leghálssýna fyrir 15. október 2020 eins og farið hafði verið fram á. 

Gerðar voru verðfyrirspurnir um rannsóknir leghálssýna hjá Landspítala ásamt Noregi, Svíþjóð og Danmörku og fundað var með forsvarsmönnum þessara rannsóknarstofa. Þá var farið yfir gæðaúttektir og öryggi og gæði haft í algerum forgangi við val á rannsóknarstofu. 

Hvidovre sjúkrahúsið bauð lægst, heildarkostnaður við frumurannsóknir var metinn mun lægri en áætlaður kostnaður Landspítala á ársgrundvelli. Minni verðmunur var á HPV mælingum. Heilsugæslan lagði höfuðáherslu á að tryggja öryggi og gæði rannsókna miðað við alþjóðleg gæðaviðmið en einnig nýta fjármagn sem best með það í huga að aukin þáttaka kvenna er mikilvægasti liðurinn í að bæta þessa þjónustu. 

Heildarkostnaður heilsugæslunnar vegna skimunar fyrir krabbameini í leghálsi er áætlaður um 50% lægri en kostnaður undanfarinna ára. Það hefur gert heilbrigðisyfirvöldum mögulegt að fella niður komugjald vegna þessarar þjónustu án þess veita meira fjármagni til hennar og þannig færa fjármagnið sem af þessu fyrirkomulagi sparast beint til notenda þjónustunnar. Vonandi leiðir það til aukinnar þátttöku sem er mikilvægast í baráttunni við leghálskrabbamein.