Hækkandi sól en ekki búið enn

Mynd af frétt Hækkandi sól en ekki búið enn
17.12.2020

Þessa dagana er sólargangur stuttur á norðurhveli jarðar en innan skamms fer daginn að lengja. Nú eru vísbendingar um að það sé líka að birta til varðandi alheimsfaraldurinn sem heimsbyggðin hefur verið að kljást við allt þetta ár. Síðustu daga hafa verið fá smit en ekki þarf mikið til að út af bregði.

Bólusetningar

Það er ótímabært að tala um hvenær bólusetning hefst hér á landi, þó að væntingar séu bundnar við að hún geti hafist á fyrri hluta næsta árs. Vonir standa til að nægt bóluefni berist til að allir geti fengið bólusetningu. Skipulagning bólusetningar er í fullum gangi og verður fyrirkomulag kynnt þegar þar að kemur.

Búið er að raða í tíu forgangshópa samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis. Tilgangurinn er að tryggja að þeir sem eru í mestri áhættu eða eru í lykilhlutverki í bráðaþjónustu fái bóluefni fyrst. Allir munu fá boð í bólusetningu um leið og kemur að þeim í röðinni og enginn þarf að óttast að verða út undan.

Lokaspretturinn

Sigurinn er samt ekki í höfn og það er mikilvægt að við hægjum ekki á nú þótt bólusetning sé í sjónmáli. Forsenda þess að vel gangi, og að bólusetning gangi vel fyrir sig, er að samfélagssmit sé ekki mikið. Því þurfum við áfram að passa einstaklingsbundnar sóttvarnir, fara eftir tilmælum og vernda viðkvæma hópa. Þótt ástandið sé gott í dag sýnir reynslan að það getur breyst á einni nóttu.

Viðkvæmir hópar um jól og áramót

Öll viljum við gleðja afa og ömmu yfir hátíðirnar en nú er mikilvægt að fara sérstaklega varlega til bera ekki smit til þeirra. Við þurfum til dæmis að fara eftir þeim reglum sem hjúkrunarheimili setja um heimsóknir í einu og öllu. Starfsfólk heimilanna er reiðubúið að aðstoða ættingja og vini við að hafa samband með öðrum hætti.

Við sem bjóðum eldra fólki heim til okkar um hátíðir þurfum að passa okkur sjálf dagana á undan til að minnka líkur á að við séum smituð.

Andleg heilsa

Undanfarið ár hefur reynt mikið á geðheilsu. Það er fullvíst að við munum vera að fást við andlegar afleiðingar faraldursins lengi.
Þunglyndi virðist hafa aukist meira hjá yngra fólki en öðrum hópum. Það er því mikilvægt að við höldum vel utan um unga fólkið okkar. Þetta er hópurinn sem hefur séð einna mesta röskun á sínu lífi og framtíðarplönum. Ef við stöndum saman og virðum tillögur sóttvarnalæknis getur ástandið orðið nánast eðlilegt í sumar og við hafið uppbyggingu af fullum krafti til eðlilegra samfélags.

Við hjá heilsugæslunni höfum áhyggjur af því að Covid-19 hafi í sumum tilfellum komið í veg fyrir að fólk leitaði eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Önnur veikindi

Okkar tölfræði gefur vísbendingar um hættuna á slíku á sumum sviðum. Við höfum séð breytingar á tíðni sjúkdóma í nágrannalöndum okkar, t.d. á greindum krabbameinum. Ef greining krabbameins dregst lengi eru minni líkur á að það náist að lækna meinið. Við brýnum því fyrir öllum að hika ekki við að leita til heilsugæslunnar ef þörf er á.

Við erum með opið virka daga yfir jólahátíðina og utan afgreiðslutíma heilsugæslustöðvanna er hægt að leita til Læknavaktarinnar á höfuðborgarsvæðinu og vaktstöðva út um allt land. Frábær samstaða hefur verið meðal landsmanna um viðbrögð við Covid-19 og við verðum að standa saman þangað til bólusetningu er lokið. Stoppum þennan faraldur!

 

Höfundur er Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.