Gleðilega Covid-19 aðventu- og jólahátíð

Mynd af frétt Gleðilega Covid-19 aðventu- og jólahátíð
11.12.2020

Aðventan og jólin snúast um hefðir og okkur finnst iðulega að engu megi breyta. Við segjum stundum: Það eru ekki jól nema ég fari í messu, hitti stórfjölskylduna á jóladag eða faðmi alla vinina í bænum á Þorláksmessu. Þegar við horfum til baka eru jólin þegar eitthvað fór úrskeiðis oft eftirminnilegri. Bilaða eldavélin, gubbupestin og jólatréð sem valt um koll er söguefni í áratugi.

Öðruvísi jól

Vegna Covid-19 eru jól og aðventa öðruvísi í ár, en við höfum engu að síður margvíslega möguleika á því að gleðjast saman. Njótum aðventu og jóla en höfum í huga þessar ráðleggingar, því sumar athafnir fela í sér meiri áhættu en aðrar.

 • Njótum rafrænna samverustunda
 • Eigum góðar stundir með heimilisfólkinu
 • Veljum jólavini (hverja við ætlum að hitta yfir hátíðarnar)

Hugum að heilsunni og stundum útivist í fámennum hópi

 • Verslum á netinu ef hægt er
 • Verum tilbúin með innkaupalista þegar farið er að versla
 • Kaupum máltíðir á veitingastöðum og tökum með heim

Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til Covid-19 er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir. Hægt er að panta sýnatöku á Mínum síðum á heilsuvera.is og sýni eru tekin alla daga nema jóladag og nýársdag. Læknavaktin er opin alla hátíðisdagana, svarað er í síma 1700. Netspjall heilsuveru verður einnig opið að hluta og erindum verður svarað, þótt stundum verði aðeins að bíða eftir svari.

Áfram þurfum við að huga að persónulegum sóttvörnum og það eru engar jólaundantekningar á því.


Heimboð og veitingar

Við þurfum að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis og takmarka fjöldann sem við hittum um hátíðirnar. Búum til jólakúlu, fámenna en góðmenna, af ættingjum og vinum sem okkur eru kær og við viljum hitta um hátíðina. Förum ekki milli jólaboða, bíðum í nokkra daga. Við þurfum að fara varlega og gæta að öllum sóttvörnum. Áður en þeir sem eru í jólakúlunni koma í heimsókn er gott að hafa í huga:

 • Virðum 10 manna regluna. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin ákvæðum um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu.
 • Tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir. Bjóðum upp á grímur, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega.
 • Forðumst samskotsboð („pálínuboð“) og hlaðborð.
 • Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.
 • Hugum að loftræstingu og loftum út meðan á boðinu stendur.
 • Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega.
 • Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá. Takmörkum fjölda fólks sem kemur að matseld, framreiðslu og frágangi. Núna eiga ekki allir að hjálpast að.
 • Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis.
 • Forðumst söng og hávært tal, sérstaklega innandyra.

 

Gisting og ferðalög

Algengt er að vinir og/eða fjölskyldumeðlimir dvelji saman yfir hátíðirnar á sama heimili. Mikilvægt er að vera búin að ræða fyrirfram hvað verður gert ef gestir og/eða heimilisfólk veikjast af Covid-19 meðan á heimsókn stendur.
Jólin eru ferðatími en áður en við ferðumst á milli staða innanlands þurfum við auðvitað að velta ýmsu fyrir okkur.

 • Erum við eða einhver í okkar nána tengslaneti í áhættuhópi?
 • Er smithættan á þínu búsetusvæði eða á svæðinu sem þú ætlar að ferðast til mikil eða að aukast?
 • Verður erfitt að halda nálægðarmörkin meðan á ferðalagi stendur (flug, rúta og/eða bátur)?
 • Er samferðafólk okkar aðrir en heimilisfólkið?

Það er gaman að fá fólkið sitt heim frá útlöndum um jólin en margs er að gæta. Fólk sem kemur til Íslands þarf að fara í sóttkví og gera þarf ráðstafanir í tengslum við það. Síðasti dagur til að koma heim til Íslands og vera laus úr sóttkví fyrir jól er 18. desember.

Ekki má sækja fólk sem ferðast til Íslands, þar með talið fjölskyldumeðlimi og vini. Þau sem koma til landsins þurfa að taka flugrútu, leigubíl, bílaleigubíl eða einkabíl sem búið er að koma með út á flugvöll.

Draumurinn um róleg jól

Undanfarin ár fór jólaundirbúningur og þétt dagskrá yfir þægindamörk á mörgum heimilum. Þá dreymdi suma um einföld jól án væntinga um að fjölskyldan mætti í ótal boð og tæki þátt í alls konar jólastússi. Nú er tækifærið til að njóta rólegrar aðventu og jóla þar sem þú og þitt heimilisfólk stjórnar dagskránni og leggur í minningasjóðinn. Söfnum efni í allar sögurnar sem munu byrja á: Manstu Covid-jólin?


Höfundur er Sigríður Dóra Magnúsdóttir heimilislæknir og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.