Líf án tóbaks er mikilvægt á meðgöngutímanum

Mynd af frétt Líf án tóbaks er mikilvægt á meðgöngutímanum
03.12.2020

Allir verðandi foreldrar óska þess að ófætt barn þeirra verði heilbrigt og hraust. Þegar von er á barni eru konur oft tilbúnar að endurskoða daglegar venjur og gera breytingar á lífi sínu. Þær eru í nýjum aðstæðum og eru að hugsa um velferð og heilsu barnsins sem þær ganga með. Þær eru líka að hugsa um sína eigin heilsu og að meðgangan og fæðingin geti gengið sem best.
Í mæðravernd er meðal annars rætt um tóbaksnotkun og ávinninginn af því að hætta að nota tóbak.

Hér eru nokkur dæmi um hvað gerist þegar tóbaksnotkun er hætt:

Á meðgöngu

  • Meiri líkur eru á að blóðflæði um fylgju til barnsins verði gott og að barnið fái nægilegt súrefni.
  • Minni líkur eru á fósturláti.
  • Minni líkur eru á því að barnið fæðist andvana.
  • Minni líkur eru á að barnið fæðist fyrir tímann.Meiri líkur eru á að barnið vaxi eðlilega í móðurkviði og að það nái þeirri stærð sem því er ætlað frá náttúrunnar hendi.

Í fæðingu

  • Meiri líkur eru á að barnið þoli fæðinguna betur ef það er gott blóðflæði um fylgjuna og nægjanlegur súrefnisflutningur til barnsins.
  • Minni hætta er á því að barnið lendi í streitu í fæðingu sem þá getur valdið inngripum eins og sogklukku eða keisaraskurði.

Eftir fæðingu

  • Meiri líkur eru á að brjóstagjöf gangi vel. Tóbaksnotkun dregur úr myndun brjóstamjólkur.
  • Minni líkur eru á óværð fyrstu dagana eftir fæðingu sem rekja má til þess að barnið er með fráhvarfseinkenni og er að kalla eftir nikótíni.
  • Minni líkur eru á vöggudauða.
  • Barnið fær síður ofnæmi, astma eða önnur lungnavandamál.

Hér eru nokkur ráð til tóbaksleysis:

  • Skráðu niður það jákvæða fyrir þig við að hætta og einblíndu á það fremur en það sem er neikvætt og erfitt.
  • Settu þér markmið. Það geta verið langtímamarkmið eða skammtímamarkmið. Það geta jafnvel verið markmið fyrir hálfan dag í einu og ný markmið fyrir það sem eftir er af deginum.
  • Ef þú hefur áður reynt að hætta er gott að fara yfir það sem gekk vel og hvað betur má fara með það í huga að halda tóbaksbindindi.
  • Tóbaksnotkun er oft tengd einhverskonar vana. Það er mikilvægt að rjúfa þau tengsl.
  • Fáðu stuðning einhvers nákomins. Reynslan hefur sýnt að stuðningur maka skiptir miklu.


Barnshafandi konur sem nota tóbak eru hvattar til að leita sér aðstoðar og stuðnings við að hætta eða minnka tóbaksnotkun og eru ljósmæður í mæðraverndinni tilbúnar að veita þann stuðning.

Hjá Ráðgjöf í reykbindindi í síma 800-6030 eru hjúkrunarfræðingar sem eru sérstaklega þjálfaðir og með mikla reynslu af því að aðstoða fólk við að hætta að nota tóbak.

Á heilsuvera.is undir meðganga og fæðing er aðgengilegt fræðsluefni um tóbak og meðgöngu, m.a. myndbandið Nýtt líf án tóbaks með viðtölum við ljósmóður, fæðingar- og nýburalækni.

Best er að hætta alveg að nota tóbak á meðgöngu, en hafa ber í huga að ef tekst að draga úr tóbaksnotkun er það alltaf ávinningur fyrir verðandi móður og barn.
Það er aldrei of seint að hætta.


Höfundar eru Karitas Ívarsdóttir ljósmóðir og Jón Steinar Jónsson yfirlæknir á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.