Nýr yfirlæknir á Göngudeild sóttvarna

Mynd af frétt Nýr yfirlæknir á Göngudeild sóttvarna
01.10.2020

Þórir Björn Kolbeinsson sérfræðingur í heimilislækningum hefur verið ráðinn yfirlæknir á Göngudeild sóttvarna.

Þórir Björn útskrifaðist úr Læknadeild HÍ 1981 og sem sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð 1988 og á Íslandi 1989. Hann starfaði á Heilsugæslustöðinni Ísafirði 1988-9 en síðan við Heilsugæslu Rangárþings frá 1989 til 2017. Þórir Björn var fagstjóri lækninga við Heilsugæsluna Mosfellsumdæmi 2017-2020.

Árin sem Þórir Björn starfaði í Rangárþingi var hann m.a. í  Almannavarnanefnd Rangárþings, Þjónustuhóp aldraðra og Vistunarmatsnefnd fyrir Suðurland. Einnig sat hann í stjórn Sjúkrahúss Suðurlands og síðan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hann var sóttvarnalæknir fyrir Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu.

Þórir Björn hefur sinnt ýmsum störfum fyrir Félags íslenskra heimilislækna og var formaður 1999-2003. Hann gegndi einnig  formennsku í Læknafélagi Suðurlands og Læknaráði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Hann er giftur Dýrfinnu Kristjánsdóttur læknaritara og á 2 börn frá fyrra hjónabandi, 3 stjúpbörn og 14 barnabörn.

Við bjóðum Þóri Björn velkominn til áframhaldandi starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.