Ræktum gróður og gott sálarlíf í sumar

Mynd af frétt Ræktum gróður og gott sálarlíf í sumar
04.06.2020

Nú er íslenska sumarið komið á kreik, dagarnir langir og vonandi sólríkir. Gróður vex og dafnar og það gleður að sjá náttúruna iða af lífi. Garðyrkja í stórum og smáum stíl, jafnvel bara í einum potti á svölunum, stuðlar að betri heilsu á marga vegu. Hver myndi ekki stökkva til og byrja að æfa íþrótt eða fara á námskeið sem lofar styrk, gleði, slökun og góðri uppskeru? 

Streituhormón lækkar 

Garðyrkjustörf í þrjátíu mínútur á dag veita mörgum okkar meiri vellíðan en innivera við tölvu eða bóklestur. Skýringin er lækkun á streituhormóninu kortísóli sem líkaminn framleiðir á meðan við vinnum úti í garðinum. Garðvinnan heldur okkur einnig á hreyfingu sem styrkir vöðva og bein. Við veruna utandyra skín sólin á okkur og líkaminn framleiðir d-vítamín sem við, aðra mánuði ársins, þurfum að fá úr lýsi eða vítamínhylkjum. 

Við að sinna léttum garðverkum í 30 mínútur á dag getur líkaminn fengið næga hreyfingu til að uppfylla hreyfiþörf sína yfir vikuna. Sumir kjósa þetta frekar en að fara út að ganga eða fara í sund. Ef garðyrkja er of erfið fyrir mjóbakið eða hnén er hægt að hafa upphækkuð beð sem auðveldara er að sinna. Í garðinum eru það hendurnar sem vinna verkin. Gott er að gæta að verklagi og hafa í huga að handtök í garðyrkju geta verið einhæf og því valdið álagseinkennum, svo sem tennisolnboga og sinaslíðurbólgum. Til að koma í veg fyrir þetta má gera nokkrar einfaldar teygjur í byrjun og við lok vinnulotunnar, og ekki síst breyta til og sinna ólíkum verkefnum á víxl. 

Ofnæmi fyrir grasi, öðrum gróðri eða skordýrabitum er algengt og fælir marga frá því að njóta þess að rækta. Ofnæmi og önnur heilsufarsvandamál sem nefnd eru hér má oftast meðhöndla vel. Úrræða má leita hjá heilsugæslunni eða á vefnum heilsuvera.is. 

Garðyrkja er sameiginlegt áhugamál margra og flestir kannast við að fá lítinn vinnufrið fyrir áhugasömum nágrönnum sem vilja forvitnast um fallegan gróður. Þannig tengist fólk gegnum garðyrkjuna enda er hún aðaláhugamál margra á þessum árstíma.

Ganga berfætt á grasi 

Mikill kostur við heimaræktað grænmeti er möguleikinn á að stunda lífræna ræktun, að nota engin skaðleg efni og með moltugerð má segja að maður leggi að minnsta kosti jafnmikið til náttúrunnar og maður þiggur. 

Samanlagður ávinningur af garðyrkju er margfalt meiri en það sem þegar er upp talið. Svo virðist sem þeir sem stunda garðyrkju fái síður þunglyndi, þeir hafi sjaldnar minnisvanda, séu styrkari og ólíklegri til að grípa umgangspestir en hinir. Ekki er nauðsynlegt að hafa áhuga á að rækta gróður til að njóta hans. Það að ganga berfættur á grasi hægir á hjartslætti og lækkar blóðþrýsting. Það að horfa á gróður út um gluggann á sjúkrahúsinu í stað bílastæðis getur flýtt bata fólks eftir skurðaðgerð. 

Það mætti því jafnvel leiða að því líkum að gróður eigi að vera hluti heilbrigðiskerfisins, ekki síst nálægt sjúkrahúsum, langlegudeildum og öldrunardeildum. Að göngutúrinn með aðstoð sjúkraþjálfarans fari fram innan um gróður, að kaffistofan á öldrunardeildinni sé í garðskála og allir geti tekið þátt í að sinna þar verkefnum dagsins. Í búbót væri auðvitað uppskeran. 

Gróður og garðyrkja getur því verið marga meina bót, jafnt fyrir líkama sem sál. Eigið sem flest gleðilegt og frjótt ræktunarsumar fyrir höndum. 

Höfundur: Nanna Sigríður Kristinsdóttir heimilislæknir og svæðisstjóri í heilsugæslunni Efra-Breiðholti.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.