Ofbeldi í samböndum

Mynd af frétt Ofbeldi í samböndum
22.05.2020

Þegar við deilum lífi okkar með öðrum er mikilvægt að velta fyrir sér hvað við viljum fá út úr sambandinu og hvernig við viljum sjá það þróast. Við þurfum að vita hvernig við viljum að komið sé fram við okkur og láta vita af því.

Heilbrigð sambönd 

Hafir þú áhyggjur af því að samband þitt við einhvern sé að þróast út í eitthvað sem þú vilt ekki er gott að skoða hvað heilbrigð sambönd fela í sér. Sambönd fólks eru mismunandi en það eru nokkur atriði sem einkenna heilbrigt samband. Í heilbrigðu sambandi ríkir jafnrétti, heiðarleiki, virðing og samskiptin eru góð. 

Í góðum samböndum eru góðu tímarnir fleiri en þeir slæmu þó að ekkert samband sé fullkomið. Engin manneskja er nákvæmlega eins og við viljum hafa hana. Allir hafa sína kosti og galla. Hver og einn ber ábyrgð á framkomu sinni við annað fólk.

Ofbeldi í samböndum 

Ofbeldi í samböndum byrjar hægt og bítandi og því getur verið erfitt að átta sig á hvað er í raun að gerast. Það byrjar gjarnan með andlegu ofbeldi og kúgun en getur svo undið upp á sig. Þá er þegar búið að brjóta þolanda niður svo honum reynist erfitt að leita sér aðstoðar. 

Andlegt ofbeldi er notað til að brjóta manneskju markvisst niður og höggva í sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. Það er meðal annars gert með því að hóta, niðurlægja, barngera, einangra og ráðast að viðkomandi með orðum. Andlegt ofbeldi getur verið af ýmsum toga en varast ber að nota hugtakið yfir skoðanaskipti, rifrildi eða ósamkomulag sem hendir alla einhvern tímann. 

Þegar ofbeldi er endurtekin hegðun eru litlar líkur á að það muni einn daginn hætta af sjálfu sér án þess að gerandi fái sérfræðiaðstoð. Það er því til lítils að bíða þess að viðkomandi hætti allt í einu uppteknum hætti eða að þolandi geti með hegðun sinni séð til þess að aldrei verði ástæða til árekstra.

Heimilisofbeldi 

Heimilisofbeldi er því miður allt of algengt. Það er oft falið og erfitt að átta sig á því. Heimilið nýtur friðhelgi og innan veggja þess geta gerst hlutir sem fara algerlega fram hjá öðrum. 

Að átta sig á því að maður sjálfur eða einhver sem manni er annt um búi við ofbeldi af hálfu maka síns, eða annarra nákominna, er mikið áfall. Verið getur að þolandi hafi markvisst verið brotinn niður árum saman. Það er hluti andlegs og félagslegs ofbeldis að gera þolandann bjargarlausan. Þolandi veit ef til vill ekkert um fjárhagslega stöðu sína, hefur lítið tengslanet og óttast ef til vill afleiðingar sambandsslita bæði fyrir sig og börn sín ef þau eru til staðar.

Einkenni heimilisofbeldis 

Heimilisofbeldi birtist í ýmsum myndum en í öllum tilvikum er um að ræða að gerandi hefur vald og stjórn á þolandanum.
Birtingarmyndir geta til dæmis verið: 

  • Tilfinningalegt ofbeldi
  • Ógnanir og hótanir
  • Líkamlegt ofbeldi
  • Kynferðisofbeldi

Hefur þú óttast um öryggi þitt í samskiptum við þína nánustu, fjölskyldu eða vini?

Fáðu hjálp 

Ef þú heldur að þú sért í ofbeldissambandi er mikilvægt að vita að það er fólk tilbúið að hjálpa þér.
Þú þarft ekki að bíða eftir því að neyðarástand skapist til að leita þér hjálpar. Þú getur leitað til: 

Vinar eða fjölskyldumeðlims sem þú treystir. 

Læknis, hjúkrunarfræðings eða ljósmóður hjá heilsugæslunni.

Á heilsuvera.is er listi yfir opinbera aðila og félagasamtök sem geta aðstoðað þig. 

Í neyðartilvikum hringdu í 112. 

Á heilsuvera.is er mikið af upplýsingum um samskipti, heilbrigð sambönd, leiðir til að leysa ágreining og fleira sem okkur öllum er hollt að rifja upp reglulega. 

 

Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu