Þjónusta heilsugæslustöðva, sýnataka og mótefnamælingar

Mynd af frétt Þjónusta heilsugæslustöðva, sýnataka og mótefnamælingar
13.05.2020

Þjónustan

Starfsemi heilsugæslustöðva er að færast í eðlilegt form og öll venjubundin þjónusta er aftur í boði.

Enn gildir að einstaklingar sem eiga erindi á heilsugæslustöðvar eru hvattir til að hringja á undan sér, svo hægt sé að skipuleggja þjónustu með smitvarnir í huga. 

Mælst er til að bara eitt foreldri komi með barn í ung- og smábarnavernd og einungis móðir komi í mæðravernd. 

Skjólstæðingum með einföld erindi sem hægt er að leysa í síma eða rafrænt er bent á að nýta sé þá möguleika.

Svona verndum við áfram viðkvæma einstaklinga og starfssemi stöðvanna.

Sýnataka

Sýnataka er áfram boði á öllum heilsugæslustöðvunum okkar. 

Einstaklingum með einkenni sem geta bent til COVID-19 sýkingar er ráðlagt að hafa símasamband við sína heilsugæslustöð og ræða hugsanlega sýnatöku. Um helgar þarf að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 vegna sýnatöku. 

Helstu vísbendingar um COVID-19  eru einkenni frá efri loftvegum, hiti, hálssærindi, breyting á lyktar- og bragðskyni, ásamt slappleika og beinverkjum.  

Mótefnamælingar

Nú er byrjað að safna blóðsýnum til mótefnamælinga en eingöngu hjá einstaklingum sem fara í blóðprufu af öðrum ástæðum. Þeim býðst að tekið verði jafnframt sýni til mótefnamælingar.  

Allir verða upplýstir rafrænt um niðurstöður en mikilvægt að hafa í huga að ekki er von á niðurstöðum á næstu vikum eða mánuðum.  

Í ákveðnum tilvikum, er hægt að fá mælingu á mótefnum hjá Landspítala samkvæmt beiðni frá lækni. Sú rannsókn er dýr og enn er óljóst hver borgar rannsóknina.  Í skoðun er, í samráði við sóttvarnalækni, hvenær þörf er á þessari rannsókn.